Úrslit Gagnaþonsins kynnt í dag

Úrslit keppninnar verða kynnt í beinni útsendingu klukkan 13 í …
Úrslit keppninnar verða kynnt í beinni útsendingu klukkan 13 í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Verðlaun fyrir bestu verkefnin í þremur flokkum nýsköpunarkeppninnar Gagnaþons verða veitt í dag. Úrslitin verða tilkynnt í beinni útsendingu á Facebook-síðu Gagnaþonsins frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands klukkan 13 en keppnin sjálf fór fram dagana 12. til 19. ágúst.

Úrslit verða tilkynnt af þeim Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og Ara Kristni Jónssyni, rektor Háskólans í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Veitt verða verðlaun í þremur flokkum – besta gagnaverkefnið, besta endurbætta lausnin og besta hugmyndin. Vinningsteymi besta gagnaverkefnisins hlýtur 750.000 krónur í sigurlaun, besta endurbætta lausnin 450.000 krónur og vinningsteymi bestu hugmyndirnar hlýtur 200.000 krónur.

Keppnin gekk út á nýskapandi hugmyndir sem nýst gætu umhverfinu. Dæmi um lausnir sem urðu til eða voru bættar í keppninni eru kolefnisreiknir sem tengdur er heimabanka, bót á matvælasóun, svifryksspá og plastumbúðir úr iðnaðarhampi annars vegar og þörungum hins vegar.

Þær lausnir sem keppa um verðlaun í hverjum flokki eru eftirfarandi:

Besta hugmyndin

Hemp Pack – Lífplast (e. bioplastics) úr iðnaðarhampi

Hjólað fyrir umhverfið – Farsímaapp sem heldur utan um sparað kolefnisspor og hvetur til hjólreiða.

MAREA – Lífplast í stað einnota plasts með það að markmiði að ráða bót á þeirri mengun sem stafar af notkun einnota plasts á Íslandi.

Towards A Better Future – Miðar að því að draga úr losun mengandi efna með mismunandi hætti.

Endurbætt lausn

&L – Hagnýtari kolefnisreiknivél

Eno – Hagnýtari lausn til að lesa opinber gögn í Excel

GreenBytes – Dregur úr matasóun veitingastaða með því að nota gervigreind og veðurstofugögn

Meniga Carbon Index – Kolefnisstuðull sem gerir fólki kleift að fá upplýsingar um kolefnisspor sitt, tengt sinni neyslu.

Svifryksspá – Tvinnar saman veðurathugunargögn og svifryksgögn til að að spá fyrir um svifryk í lofti fyrir komandi daga.

Besta gagnaverkefnið

Flikk Flokk – Snjallsímaforrit sem auðveldar endurvinnslu með því að veita upplýsingar um hvernig má endurvinna vöruna, þegar strikamerki vöru er skannað.

Hark – Myndræn framsetning á opinberum kortagögnum

NetZero – Auðveldar einstaklingum að meta kolefnisspor sitt, ásamt því að veita tækifæri kolefnisjöfnunar í takt við neyslu.

Núloft – Miðlar upplýsingum og spáir fyrir um loftgæði í Reykjavík

Skrefinu framar – App, sem skorar á fólk og ýtir undir meðvitund um að minnka kolefnisfótspor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert