„Þegar stærri hópar smitast þá berst veiran í gegnum loftið með litlum dropum,“ segir Björn Birnir, prófessor við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara.
Rannsókn hans og Luizu Angheluta, prófessors við sama háskóla, er fyrsta vísindalega sönnun þess efnis að léleg loftræsting geti dreift kórónuveirunni verulega og orsakað hópsmit, að sögn Björns. Í rannsókninni er litið til nokkurra hópsmita, þ.á m. hópsmits sem varð á veitingahúsi í Guangzhou í Kína í mars:
„Þar var greinilegt að litlir dropakjarnar bárust með loftræstingunni og þar sem ekkert nýtt loft var tekið inn jókst þéttleikinn í dropunum sem gerði það að verkum að umhverfið var orðið mjög smitandi,“ segir Björn.
Sama var upp á teningnum þegar 94 smituðust á fimm dögum á skrifstofu í Suður-Kóreu, að því er rannsóknin leiðir í ljós.
Til að fyrirbyggja smit er tveggja metra reglan fyrsta skrefið, að sögn Björns, þar sem smit berst innan tveggja metra með stórum dropum að því er rannsóknin staðfestir. Þó er næsta skrefið að gæta að loftræstingu rýma.
„Hættan er alls staðar þar sem er lokað rými og ef engin loftræsting er til staðar er það verra. Ef hún er ekki nógu góð getur hún aukið vandann því hún dreifir ögnunum um rýmið,“ segir hann.
Í rannsókninni var einnig kannað hópsmit í rútu í Kína, sem sýndi sömu niðurstöðu. Ein kona með kórónuveiruna endaði á því að smita helming farþega – þá sem sátu næst henni og þá sem smituðust af kjarnadropum sem fylltu illa loftræst rýmið.
Aðspurður segir hann að flugvélar búi yfir ágætis loftræstingu þar sem hún hafi innbyggðar síur en galli sé að loftið ferðist nokkra hringi í vélinni áður en það fer í gegnum loftræstikerfið, svo grímunotkun skiptir ekki síður máli í vélunum.
„Barir eru náttúrlega verstir þar sem tveggja metra reglan er síður virt þar. Lítil veitingahús, afskekkt herbergi í veitingahúsum, skólar og skólastofur með mörgum krökkum eru líka hættuleg. Skrifstofur og kennslustofur hafa ekki góða lofræstingu og það er þörf á skýrari reglum um hvernig fólk á að hegða sér í svoleiðis rými,“ segir Björn.
Segir hann þessar uppgötvanir vera meginástæðu þess að háskólar í Bandaríkjunum sjái ekki fram á að geta viðhaldið kennslu innandyra og loka.
„Grímur eru hluti af lausninni. Ef við ætlum að búa til kerfi þar sem fólk getur verið á skrifstofunni er nauðsynlegt að það sé með grímu, jafnvel þótt það sé eitt á skrifstofunni,“ segir Björn að lokum.