Fundu svarthol af nýrri gerð

Á þessari teikningu, frá Max Planck-stofnuninni, er hermt eftir samruna …
Á þessari teikningu, frá Max Planck-stofnuninni, er hermt eftir samruna svartholanna beggja. AFP

„Þessi viðburður opnar dyr inn í kosmíska ferlið þegar svarthol myndast,“ sagði vísindamaðurinn Stavros Katsanevas á stafrænum blaðamannafundi í dag, þegar hann og fleiri vísindamenn kynntu nýja uppgötvun svarthols.

Holið er það elsta sem hingað til hefur fundist, og ætti í raun og veru ekki að geta verið til miðað við þær kenningar sem svartholafræðin hafa grundvallast á í síðari tíð.

Svartholið í millistærð

Talið er að fyrirbærið, sem ber það þjála heiti GW190521, hafi myndast við samruna tveggja annarra svarthola.

Vegur það á við 142 sólir, það er ef miðað er við stjörnuna sem hlýjar okkur jarðarbúum, og þykir af þeim sökum í millistærð þegar svarthol eru annars vegar.

Og það er það sem þykir merkilegt. Fram til þessa hafa nefnilega aðeins fundist svarthol sem vega á við um þrjár til tíu sólir annars vegar, eða þá hins vegar á borð við milljónir eða jafnvel milljarða sóla.

Á bak við rannsóknina standa um 1.500 vísindamenn og voru niðurstöður hennar kynntar í dag eins og áður sagði.

„Þetta er algjörlega nýr heimur,“ sagði meðhöfundurinn Micheala Hirschmann við það tilefni, og bætti við að þetta gæti leitt til gjörbreytingar á því hvernig hugsað er um svarthol.

Einn öflugasti viðburður heimssögunnar frá miklahvelli

Benti hún á að þetta styddi við þær kenningar að risasvarthol gætu myndast eftir ítrekaðan samruna slíkra svarthola sem eru að millistærð.

Uppgötvunin sjálf felst í því að vísindamenn námu með tækjum sínum þyngdaraflsbylgjur sem reyndust eiga uppruna sinn fyrir meira en sjö milljörðum ára, þegar GW190521 myndaðist við samruna tveggja minni svarthola þar sem annað var á við um 65 sólir og hitt á við 85.

Þegar þau skullu saman leystist úr læðingi orka á við áttfaldan massa sólarinnar, og um leið varð einn öflugasti viðburður heimssögunnar frá miklahvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert