Lyfjarisinn AstraZeneca segir að enn sé möguleiki á að bóluefni við kórónuveirunni geti verið fáanlegt fyrir lok þessa árs, þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á prófunum á efninu.
„Við gætum enn verið með bóluefni í höndunum við lok þessa árs, eða snemma á næsta ári,“ sagði framkvæmdastjórinn Pascal Soriot á blaðamannafundi í dag.
Fyrirtækið tilkynnti á þriðjudag að það hefði gert hlé á alþjóðlegum rannsóknum sínum á bóluefninu eftir að ein af þeim sem tók þátt í prófunum veiktist.
Konan sem veiktist upplifði einkenni sjaldgæfs en alvarlegs hryggbólgusjúkdóms sem kallast á ensku transverse myelitis, að því er framkvæmdastjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, greindi frá á einkasímafundi með fjárfestum í gærmorgun. Búist var þá við að hún yrði útskrifuð af sjúkrahúsi í gær.
Tilvonandi bóluefni AstraZeneca er eitt níu efna í heiminum sem nú eru á þriðja stigi prófana.
Fyrirtækið hóf prófanir á 30 þúsund sjálfboðaliðum víðs vegar um Bandaríkin í lok ágúst. Einnig taka smærri hópar þátt í Brasilíu og á öðrum stöðum í Suður-Ameríku.
Útlit er fyrir að bóluefni AstraZeneca verði það sem stendur Íslendingum til boða, takist að fá markaðsleyfi fyrir bóluefnið að prófunum loknum.
Eins og áður hefur komið fram í fréttum mbl.is og Morgunblaðsins hafa Svíar heimild til þess að framselja okkur bóluefni úr Evrópusambandinu, við ástand eins og skapast hefur vegna kórónuveirufaraldurins. Yrði það gert á grundvelli samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Svíþjóð.