Bretar panta bóluefni fyrir 1,37 milljarða evra

Hlutabréf í Valneva hafa hækkað um rúm 20% í verði …
Hlutabréf í Valneva hafa hækkað um rúm 20% í verði í dag. AFP

Bretar hafa tryggt sér allt að 190 milljónir skammta af bóluefni við kórónuveirunni sem er í þróun hjá fransk-austurríska lyfjafyrirtækinu Valneva. Samningurinn er metinn á 1,37 milljarða evra.

Í júlí var greint frá því að breska ríkisstjórnin hefði náð samkomulagi um kaup á 60 milljónum skammta frá lyfjafyrirtækinu. Valneva á von á því að hefja prófanir á bóluefninu í desember og ef niðurstaða þeirra verður jákvæð verði hægt að hefja afhendingu á lyfinu á síðari hluta ársins 2021.

Þær 60 milljónir skammta sem Bretar fá afhentar á næsta ári munu kosta um 470 milljónir evra. Síðan eiga Bretar forkaupsrétt á 40 milljónum skammta árið 2022 og 30-90 milljónum skammta á árunum 2023-2025.

Bretar hafa gert samninga við nokkur lyfjafyrirtæki varðandi kaup á bóluefnum við COVID-19 til að tryggja að þeir fái bóluefni um leið og það kemur á markað. Auk Valneva hefur breska ríkið samið við BioNTech, Pfizer, Janssen og Novavax.

Hlutabréf í Valneva hafa hækkað um meira en 20% í kauphöllinni í París morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert