Yfirborð sjávar gæti hækkað um 40 sm

Gervihnattarmynd af ísjaka brotna frá grænlenskum jökli.
Gervihnattarmynd af ísjaka brotna frá grænlenskum jökli. AFP

Áframhaldandi útblástur gróðurhúsalofttegunda gæti orðið til þess að yfirborð sjávar hækki um tæpa 40 sentímetra á þessari öld.

Ástæðan er bráðnun íshellunnar á Suðurskautslandinu og Grænlandi, að því er kemur fram í niðurstöðum stórrar alþjóðlegrar rannsóknar.

Í íshellunum er nægilega mikið af frosnu vatni til að lyfta yfirborði sjávar um 65 metra. Vísindamenn hafa auknar áhyggjur af því að áframhaldandi bráðnun verði til þess að ástandið verði í takt við verstu spá Sameinuðu þjóðanna. 

Bjuggu til tölvulíkön 

Sérfræðingar frá yfir þrjátíu rannsóknarstofnunum notuðu gögn um hitastig og seltu sjávar til að búa til ýmis tölvulíkön sem líkja eftir mögulegri bráðnun íshellunnar á Grænlandi og Suðurskautslandinu.

Þeir skoðuðu tvo möguleika varðandi loftslagið. Annan þar sem mannkynið heldur áfram að menga eins mikið og það hefur gert og annan þar sem dregið er verulega úr útblástri gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2100.

Þeir komust að því að miðað við fyrri möguleikann með áframhaldandi mengun muni bráðnun íss á Suðurskautslandinu hækka yfirborð sjávar um 30 sentímetra áður en öldinni lýkur, auk þess sem bráðnun íshellunnar á Grænlandi bætir 9 sentímetrum við.

Slík aukning myndi hafa verulega slæm áhrif víðs vegar um heiminn. Eyðilegging af völdum storma og fellibylja myndi aukast til muna og aukin flóð á svæðum þar sem hundruð milljóna manna búa við strendur myndu hafa alvarlegar afleiðingar.

Ef síðari möguleikinn er skoðaður með minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda myndi íshellan á Grænlandi hækka um í kringum 3 sentímetra fyrir árið 2100 til viðbótar við það sem hingað til hefur verið áætlað, vegna hærra hitastigs jarðar af völdum mannkyns sem nemur einni gráðu frá upphafi iðnbyltingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert