Byltingarkennd veirupróf fá grænt ljós

Frá landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli. Með þeirri tækni sem nú er …
Frá landamæraskimun á Keflavíkurflugvelli. Með þeirri tækni sem nú er nýtt líða margir klukkutímar frá því farið er í sýnatöku og þar til niðurstöður liggja fyrir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kórónuveirupróf sem gefa niðurstöður á 15 til 30 mínútum hafa verið framleidd og verður dreift um allan heim. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið svokallað neyðarsamþykki fyrir notkun einnar slíkrar tegundar og von er á að önnur tegund hljóti náð fyrir augum stofnunarinnar á allra næstu dögum. Guardian greinir frá þessu.

Miklar vonir eru bundnar við hin nýju veirupróf; þau gætu hægt á útbreiðslu faraldursins í löndum um allan heim og bjargað lífi þúsunda. Eru þau einkum talin geta nýst við umfangsmiklar skimanir á heilbrigðisstarfsólki en víða í þróunarlöndum hefur margt heilbrigðisfólk dáið af völdum Covid-19. 

Prófið, sem þegar hefur verið samþykkt, er frá suðurkóreska fyrirtækinu SD BioSensor. Það minnir á óléttupróf í útliti og er niðurstaða sýnatökunnar sýnd með bláum strikum: tvö blá strik tákna jákvætt sýni. Hin tegundin, sem bíður eftir grænu ljósi, er frá bandaríska fyrirtækinu Abbott.

Ríkari lönd fjármagna verkið og tryggja sér bróðurpartinn

Ríkari lönd heims hafa tekið höndum saman í samstarfsverkefninu Access to Covid initiative (ACT) sem stofnað var til í mars af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, frönsku ríkisstjórninni og Gates-stofnuninni. Munu þátttökuríkin í því samstarfi fá um 80% framleiðslunnar.

Með aðkomu sinni að samkomulaginu skuldbindur Gates-stofnunin sig til að tryggja lyfjafyrirtækjunum að tiltekið magn af veiruprófum og öðrum uppfinningum þeirra verði keypt, og tryggir þannig grundvöll fyrir tilraunastarfsemi fyrirtækjanna. Á móti skuldbinda aðildarríki ACT-verkefnisins sig til að tryggja þróunarríkjum og meðalþróuðum ríkjum að minnsta kosti 20% framleiðslunnar á niðurgreiddu verði. Í tilviki veiruprófanna eru það 120 milljónir prófa fyrir um 700 krónur hvert.

Óvíst með aðkomu Íslands

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, segist í samtali við mbl.is vera óviss um hver aðkoma íslenskra stjórnvalda að samstarfinu sé. Vísar hann á ráðuneytið í þeim efnum. „Við höfum staðið í þeirri trú að þegar svona nýjungar komi fram séu þær einkum ætlaðar ríkjum sem eru í hvað verstri stöðu. Í mörgum þróunarlöndum er þessi faraldur rétt að byrja. En svo veit maður aldrei hvernig kaupin gerast á eyrinni.“

Kjartan segir að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi vitanlega áhuga á öllum nýjungum sem þessum, en þó megi ekki gleyma að skimunargeta Íslands sé þegar án hliðstæðu í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert