Vikuleg notkun nefúða gæti veitt fólki 96 prósenta vernd gegn kórónuveirunni. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar bresku heilbrigðisstofnunarinnar Public Health England.
Tilraunir með nefúðann á mannfólki gætu byrjað innan nokkurra mánaða eftir vel heppnaðar tilraunir á mörðum.
Úðinn var upphaflega þróaður til að efla ónæmiskerfið til að verjast kvefi og flensu. Núna hefur hann verið prófaður á nýjan leik til að athuga hvort hann er nothæfur gegn kórónuveirunni, að sögn The Telegraph. Það var ástralska líftæknifyrirtækið Ena Respiraroty sem þróaði nefúðann.
„Við höfum verið undrandi á því hversu árangursrík meðferðin hefur verið,“ sagði dr. Christophe Demaison, framkvæmdastjóri Ena Respiratory.
„Með því að efla ónæmiskerfið hjá mörðunum með meðferðinni höfum við séð veiruna vera fljóta að hverfa á braut. Ef mannfólkið bregst á svipaðan hátt við, þá eru kostirnir tveir þegar kemur að meðferð. Fólk sem fær veiruna myndi mjög líklega losa sig fljótt við hana. Meðferðin myndi tryggja að einkenni sjúkdómsins yrðu mjög væg. Þetta á sérstaklega við um þá sem eru viðkvæmir fyrir,“ sagði Demaison.
Bætti hann við að það hversu nefúðinn er fljótvirkur þýðir að ólíklegt er að smitaðir einstaklingar smiti aðra, sem myndi draga mjög úr útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.
Líftæknifyrirtækið hefur óskað eftir auknu fjármagni til að flýta fyrir þróun lyfsins og stuðla að dreifingu þess á heimsvísu en opinbert nafn þess er INNA-051.