Heitasti september frá upphafi mælinga

Að meðaltali bráðnuðu um þrjár milljónir tonna af ís úr …
Að meðaltali bráðnuðu um þrjár milljónir tonna af ís úr íshellunni á Grænlandi á degi hverjum árið 2019. AFP

Nýliðinn septembermánuður var heitasti september á jörðu frá upphafi mælinga. Þetta sýna mælingar frá Kóperníkus, samstarfverkefni Evrópusambandsins um loftslagsrannsóknir.

Þrír mánuðir ársins hafa nú verið þeir heitustu frá upphafi mælinga – janúar, maí og september – en apríl og júní voru nálægt því sömuleiðis. Þá stefnir í að árið í heild verði svipað árinu 2016, sem er heitasta ár í sögu mælinga.

Sé litið til síðustu tólf mánaða, október 2019 til september 2020, hefur hitastig á jörðunni verið um 1,3 gráðum yfir meðalhita fyrir iðnbyltingu. Er það ansi nálægt 1,5 gráða viðmiðinu sem sagt er í skýrslu ráðgjafarnefndar Sameinuðu þjóðanna að muni valda „alvarlegum afleiðingum“.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá 2016 stefna ríki heims að því að halda hlýnun jarðar „vel fyrir neðan 2 gráður“ miðað við það sem var fyrir iðnbyltingu, og 1,5 gráður ef mögulegt.

Veðuröfgar

Veðuröfgar mátti sjá víða um heim í liðnum mánuði. Á svæðum í Norður-Afríku og Tíbet var hiti mikill, en í Los Angeles-sýslu í Bandaríkjunum náði hitinn 49 gráðum. Fimm af sex stærstu skógareldum í sögu Kaliforníu brunnu enn í lok mánaðar.

Íshellan á norðurskautinu hefur aðeins einu sinni verið minni frá því mælingar hófust, en í sumar skrapp hún saman og er nú undir fjórum milljónum ferkílómetra. Eykur samdrátturinn enn á hlýnun jarðar, þar sem nýfallinn snjór endurvarpar 80 prósentum af geislum sólarinnar aftur út í geim.

Grænlandsjökull heldur áfram að hopa, en að meðaltali bráðnuðu um þrjár milljónir tonna af ís úr íshellunni á degi hverjum árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert