Leyniþjónustusamtökin Five Eyes, bandalag leyniþjónusta í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu, Kanada og Nýja-Sjálandi, kallar eftir því að tæknifyrirtæki innleiði „bakdyraleiðir“ í öll forrit þar sem skilaboð notenda eru dulkóðuð frá enda til enda.
Í yfirlýsingu frá bandalaginu segir að vöxtur svokallaðrar dulkóðunar frá enda til enda (e. end-to-end encryption) sem geri eftirlit lögreglu ómögulegt sé ógn við öryggi almennings. „Það er aukin samstaða meðal ríkisstjórna og alþjóðastofnana um að grípa verði til aðgerða,“ segir í yfirlýsingunni.
Samtökin Electronic Fronter Foundation, sem berjast fyrir friðhelgi á netinu, segja að sömu viðhorf sé að finna hjá stjórnvöldum víða um heim, þar með talið í Evrópu. Samkvæmt vinnuskjölum frá Evrópuþinginu sem lekið var á dögunum hefur þingið í hyggju að leggja fram frumvarp sem tekur á dulkóðun á næstu mánuðum.
Ýmsir samskiptamiðlar á borð við Whatsapp og Telegram nýta sér slíka dulkóðun þegar skilaboð eru send á milli notenda. Skilaboðin eru þá dulkóðuð áður en þau eru send á netþjónin, og aðeins tæki viðtakandans getur afdulkóðað þau. Þannig er ekki mögulegt fyrir eftirlitsstofnanir að komast yfir gögnin. Jafnvel þótt fyrirtækin myndu vilja veita þeim aðgang að þeim, þá er það ekki hægt, ólíkt því sem til dæmis gildir um skilaboð á Facebook eða gögn sem geymd eru á iCloud og eru ekki dulkóðuð með sama hætti.
Eftirlitsstofnanir hafa lengi kallað eftir því að tæknifyrirtæki veiti þeim einhvers konar bakdyraleið framhjá dulkóðun, baráttumönnum fyrir friðhelgi einkalífs til lítillar ánægju. Vilja eftirlitsstofnanir þá fá einhvers konar „master-lykil“ sem hægt er að nota til að afdulkóða allar upplýsingar.
Andstæðingar hugmyndarinnar bera fyrir sig friðhelgi einkalífs, en einnig að aðgangur eftirlitsstofnana að samskiptum notenda ógni lýðræðinu og geti styrkt stöðu yfirvalda í harðstjórnarríkjum. Þá benda þeir á að ekki sé til nein leið til að hleypa aðeins „góðu gæjunum“ að. Sé til „masterlykill“ sem geti afdulkóðað gögn milljóna notenda þá muni allir tölvuþrjótar heims ásælast þau gögn. Mörg dæmi eru þegar um að brotist sé inn í tölvukerfi eftirlitsstofnana á borð við CIA og NSA og gögnum stolið.