Líklegt er að auðveldara muni reynast að þróa bóluefni við Covid-19 heldur en við HIV veirunni. Þetta kemur fram í svari Valgerðar Andrésardóttur, sameindaerfðafræðings á Vísindavefnum í dag. Spurt var hvers vegna vísindamenn telji að hægt sé að þróa bóluefni við Covid-19 þegar enn hefur ekki tekist að gera bóluefni við HIV.
Veirurnar eru eðlisólíkar þó þær séu hvor tveggja RNA-veirur sem taldar eru hafa borist úr öðrum dýrategundum í menn.
HIV veiran er talin hafa borist úr öpun í menn á síðustu öld og hefur dregið milljónir manna til dauða. Vísindamenn hafa reynt að þróa bóluefni við henni árangurslaust í um 35 ár, að því er segir í svari Valgerðar.
Hún segir að há stökkbreytitíðni HIV sé meginástæða þess að ekki hafi tekist að þróa bóluefni með ónæmissvari sem nái að losa mannslíkamann við veiruna. Stökkbreytingar í vakaeiningu (e.epidote) valdi því að veiran kemst undan ónæmissvari.
Veiran sem veldur Covid-19 (SARS-CoV-2) er einnig RNA-veira með RNA erfðaefni. Kórónaveirur eru með um helmingi stærra erfðaefni en aðrar þekktar RNA-veirur og hafa leiðréttingarensím sem veldur því að stökkbreytitíðni þeirra er ekki eins há og annarra RNA-veira, að því er fram kemur í svarinu.
Þá segir, að aðrar kórónaveirur sem þekktar eru í mönnum séu SARS-CoV, sem kom upp í Kína árið 2002 en hvarf aftur árið 2004, MERS-CoV, sem kom upp í Sádi-Arabíu árið 2012 og fjórar gerðir sem valda kvefi. Bent er á, að keki hafi tekist að þróa bóluefni við þekktum kórónaveirum til þessa en líkt og Covid-19 er þær allar taldar hafa borist í menn frá dýrum nýlega.
Líklegt þykir að hægt sé að þróa bóluefni við SARS-CoV-2 sem veldur Covid-19 því vitað er að veiran vekur ónæmissvar sem losar líkamann við hana. Þróun bóluefna er flókið ferli og að mörgu að hyggja. Einnig kemur fram að í svari Valgerðar að þróun bóluefnis við SARS-Cov-2 sé keyrð áfram með fordæmalausum hraða og nokkur bóluefni komin á síðasta stig þróunar. Árangur þeirra fer líklega að koma í ljós á næsta ári.