Mótefni við veirunni virðist dvína hratt

Bargestir í Soho í Lundúnum í september.
Bargestir í Soho í Lundúnum í september. AFP

Magn þeirra mót­efna sem verja fólk fyr­ir kór­ónu­veirunni dvín­ar nokkuð hratt eft­ir að veiru­smit er liðið hjá.

Niður­stöður nýrr­ar rann­sókn­ar við Im­per­ial-há­skól­ann í Bretlandi benda til þessa, en mót­efni gegna lyk­il­hlut­verki í ónæmis­kerf­inu og hindra veiruna í að kom­ast inn í frum­ur lík­am­ans.

Rann­sókn­ar­hóp­ur­inn við há­skól­ann komst að því að því fólki sem mæld­ist með mót­efni fækkaði um 26% á milli júní og sept­em­ber.

Bent er á að svo virðist sem ónæmi við veirunni sé hverf­ult og fólki sé hætt við að smit­ast oft­ar en einu sinni.

Dróst meira sam­an hjá fólki eldra en 65 ára

Við fyrstu mæl­ing­ar, um mánaðamót júní og júlí, fund­ust mæl­an­leg mót­efni í um 60 af hverj­um þúsund sem prófaðir voru í Bretlandi. 

Í síðustu próf­un­um sem gerðar voru, í sept­em­ber, fund­ust mót­efni í aðeins 44 af hverj­um þúsund.

„Ónæmi er á nokkuð hraðri und­an­leið, það eru aðeins þrír mánuður frá fyrstu próf­un­um og við erum þegar far­in að sjá 26% sam­drátt í mót­efn­um,“ seg­ir pró­fess­or Helen Ward, sem stóð ásamt öðrum að rann­sókn­inni, í sam­tali við BBC.

Sam­drátt­ur í magni mót­efna mæld­ist meiri hjá fólki eldra en 65 ára, og einnig hjá þeim sem þurftu ekki að þola helstu ein­kenni sjúk­dóms­ins Covid-19, sem veir­an veld­ur.

Lyfjaglös sem geyma eiga bóluefnisframleiðslu AstraZeneca.
Lyfjaglös sem geyma eiga bólu­efn­is­fram­leiðslu AstraZeneca. AFP

Til marks um dvín­andi ónæmi

Óvíst er hvaða þýðingu þetta hef­ur. Bent er á í um­fjöll­un breska rík­is­út­varps­ins að aðrir hlut­ar ónæmis­kerf­is­ins, á borð við svo­kallaðar T-frum­ur, geti einnig leikið hlut­verk við að vinna á veirunni.

Rann­sókn­ar­hóp­ur­inn var­ar þó við að magn mót­efna í fólki gefi yf­ir­leitt nokkuð sterkt til kynna hvort það sé varið fyr­ir veiru­smiti.

Pró­fess­or­inn Wen­dy Barclay met­ur það svo, við mat á þeim gögn­um sem liggja fyr­ir, að dvín­andi magn mót­efna sé til marks um dvín­andi ónæmi.

Önnur sýk­ing verði von­andi mild­ari

Áður en þessi far­ald­ur hóf för sína um heims­byggðina þekkti mann­kynið fjór­ar aðrar gerðir kór­ónu­veira, sem sýkja okk­ur oft á lífs­leiðinni. Þær valda hefðbundn­um ein­kenn­um kvefs og geta smitað okk­ur með sex til tólf mánaða milli­bili.

Enn sem komið er hafa afar fá til­felli feng­ist staðfest, þar sem fólk hef­ur sýkst tvisvar af kór­ónu­veirunni. Rann­sak­end­urn­ir vara hins veg­ar við því að það gæti verið vegna þess að svo skammt sé frá því fyrsta bylgja far­ald­urs­ins náði há­marki.

Von­ast er til að önn­ur sýk­ing­in reyn­ist mild­ari en sú fyrri, jafn­vel þótt ónæmi viðkom­andi hafi minnkað í millitíðinni, þar sem lík­am­inn á að hafa svo­kallað „ónæm­isminni“ frá fyrstu viður­eign­inni við veiruna og kunna þannig að berj­ast á móti.

Fólk á ferli í Manaus í Brasilíu í síðasta mánuði. …
Fólk á ferli í Manaus í Bras­il­íu í síðasta mánuði. Far­ald­ur­inn hef­ur fellt fjölda fólks í land­inu. AFP

Bólu­efni áfram okk­ar besta von

Þrátt fyr­ir þessi tíðindi er ekki gert lítið úr mik­il­vægi þess að bólu­efni komi fram á sjón­ar­sviðið.

Pró­fess­or­inn Paul Elliott, sem stýr­ir REACT-2, þ.e. mót­efna­mæl­ingu breskra stjórn­valda, seg­ir að viðbragð lík­am­ans við bólu­efni kunni að verða öðru­vísi. Þó sé mögu­legt að ein­hverj­ir muni þurfa fleiri bólu­setn­ing­ar eft­ir þá fyrstu, til að halda ónæm­inu við.

Á vís­inda­vef Há­skóla Íslands seg­ir enda að bólu­setn­ing­ar séu gjarn­an hannaðar á þann veg að þær geti myndað sterk­ara og end­ing­ar­betra ónæm­is­svar miðað við nátt­úru­lega sýk­ingu.

„Þannig er bólu­efni áfram okk­ar besta von um að koma öllu aft­ur í samt horf og geta kvatt sjúk­dóm­inn COVID-19 í bili,“ skrifaði Jón Magnús Jó­hann­es­son, deild­ar­lækn­ir á Land­spít­al­an­um, í síðasta mánuði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert