„Þetta er eitt magnaðasta augnablik í mínu lífi og á mínum ferli,“ sagði Tal Zaks, einn af þeim sem leiðir þróun bóluefnis hjá lyfjafyrirtækinu Moderna, í kjölfar þess að fréttir um að bóluefni fyrirtækisins hefði 94,5% virkni voru sendar út. Zaks sagði markmið bóluefnisins afmarkað og það hefði því afmörkuð áhrif á þá sem bólusettir eru.
Í viðtali við CNN var Zaks spurður hvernig honum leið þegar hann heyrði af mikilli virkni bóluefnisins. Þá sagði hann algjörlega frábært að fá tækifæri á að þróa bóluefnið og koma þannig í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum Covid-19.
Þá var rætt við Zaks í hlaðvarpi fréttamiðilsins Axois. Þar var hann spurður út í hraða þróun bóluefnisins og það hvernig hann svaraði fólki sem hefði áhyggjur af því að þróunin hefði tekið mun skemmri tíma en vant er með bóluefni.
Við því sagði hann að það skipti máli hversu mikill ávinningurinn væri annars vegar og hve mikil áhættan væri hins vegar. Þar sem Moderna hefði gert víðtæka rannsókn á bóluefninu og því væru alvarlegar aukaverkanir mjög ólíklegar. Hann sagði að markmið bóluefnisins væri mjög skýrt og afmarkað og bóluefnið hefði því afmörkuð áhrif á þá sem bólusettir eru. Að sögn Zaks ætti það að skila sér í öruggu bóluefni sem endist lengi.
Bóluefnið hefur ekki verið samþykkt, ekki frekar en annað bóluefni sem er komið jafn langt í þróun, bóluefni frá Pfizer.