Herbert Diess, forstjóri þýska bifreiðaframleiðandans Volkswagen, gerir ráð fyrir að sjálfkeyrandi bifreiðar verði komnar á markað árið 2025. Þá verði umrædd ökutæki komin í sölu á næstu fimm til tíu árum. Þetta kom fram í viðtali við Herbert í þýska dagblaðinu Wirtschaftswoche.
Benti Herbert á hraða þróun tölvukubba í sjálfkeyrandi bifreiðum síðustu ár. Þá sagði hann að miklar framfarir á sviði gervigreindar myndu styðja við framleiðslu bifreiðanna.
„Það má gera ráð fyrir að bifreiðarnar geti stýrt sér sjálfar, jafnvel í flóknum aðstæðum, í náinni framtíð,“ var haft eftir forstjóranum, sem gekk til liðs við Volkswagen árið 2015 frá bifreiðaframleiðandanum BMW.