Hitamet halda áfram að falla

AFP

Nýliðinn nóvembermánuður var sá hlýjasti í Evrópu sem sögur fara af. Haustið hefur aldrei verið jafn hlýtt í Evrópu og það var í ár, samkvæmt gögnum frá Kópernikus, loftslagsstofnun Evrópusambandsins.

Samkvæmt Kópernikus var lofthitinn í nóvember 0,8 gráðum hærri í nóvember 2020 en meðalhitinn á 30 ára tímabili, 1981-2010, og rúmlega 0,1 gráðu hærri en fyrra met. 

Á Íslandi var tíðarfar ágætt í nóvember og samgöngur greiðar. Að tiltölu var hlýjast austanlands en að tiltölu kaldast sunnan- og vestanlands. Mjög kalt var á landinu dagana 18. til 19. Óveðrasamt var á landinu dagana 4. og 5. og aftur dagana 26. og 27.

Meðalhiti í Reykjavík í nóvember var 1,9 stig og er það 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 1,0 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 2,2 stig og 3,5 stig á Höfn í Hornafirði.

Sjá nánar hér

Óvenjuhlýtt er í New York og víðar um Bandaríkin.
Óvenjuhlýtt er í New York og víðar um Bandaríkin. AFP

Haustið í Evrópu, september til nóvember, var 1,9 gráðu hlýrra en í meðalári og 0,4 gráðum heitara en það var árið 2006 er fyrra met var sett.

Hitastigið er töluvert hærra en eðlilegt er á norðurslóðum og í Síberíu þessa mánuðina. Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og suðurhluta Afríku sem og austurhluta Suðurskautslandsins og meirihluta Ástralíu. 

Heitustu ár frá því mælingar hófust hafa öll verið eftir árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert