Lenti með jarðvegssýni af tunglinu

Chang'e könnunarfarið skildi meðal annars kínverska fánann eftir á yfirborði …
Chang'e könnunarfarið skildi meðal annars kínverska fánann eftir á yfirborði tunglsins. AFP

Ómannað kínverskt geimfar lenti í kvöld eftir könnunarleiðangur til tunglsins, en innanborðs voru meðal annars fyrstu jarðvegssýnin frá tunglinu sem tekin hafa verið í rúma fjóra áratugi. 

Chang'e 5 könnunarfarið lenti á tunglinu í upphafi desember-mánaðar og safnaði þar jarðvegssýnum og tunglgrjóti, en þetta var í fyrsta sinn sem sýni voru tekin á tunglinu frá því að sovéska tunglfarið Luna 24 fór til tunglsins árið 1976. 

Þegar könnunarfarið yfirgaf tunglið 3. desember hafði það innanborðs um 4,5 kílógrömm af sýnum, en þau voru fengin úr Stormahafinu svonefnda, en það er stór hraunslétta, sem ekki hefur verið könnuð áður. 

Geimfarið sem tók við sýnunum lenti í Innri-Mongólíu-héraði í norðurhluta Kína, og gekk leitin að því greiðlega. Zhang Keijan, forstjóri kínversku geimferðastofnunarinnar sagði að leiðangurinn hefði heppnast fullkomlega. 

Kínverjar eru nú einungis þriðja þjóðin á eftir Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum til þess að sækja sýni til tunglsins og fara með aftur til jarðar. Geimvísindamenn vonast til þess að sýnin muni hjálpa þeim til þess skilja betur upphaf og myndun tunglsins, sem og eldhræringar á yfirborði þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert