Ekki hefur enn verið sýnt fram á að fæðubótarefni með D-vítamíni verji fólk gegn Covid-19 sjúkdómnum. Þetta er mat helstu sérfræðinga í Bretlandi. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Frekari rannsókna sé þó þörf og áfram er mælt með að fólk innbyrði daglega D-vítamín í vetur til að halda vöðvum og beinum heilbrigðum.
Í umfjöllun BBC segir að heilbrigðisyfirvöld hafi rannsakað möguleg tengsl D-vítamíns og sjúkdómsins, eftir að smærri rannsóknir höfðu gefið til kynna að vítamínið eigi þátt í ónæmisviðbrögðum líkamans við veirum sem hafa áhrif á öndunarfæri.
Niðurstaða þeirrar rannsóknar er hins vegar sú að ekki séu næg sönnunargögn til staðar svo hægt sé að mæla með neyslu D-vítamíns til að koma í veg fyrir eða meðhöndla sjúkdóminn.
Haft er eftir Adrian Martineau, prófessor í öndunarfærasýkingum og ónæmi við Queen Mary-háskólann í Lundúnum, að mögulega dragi vítamínið úr áhættu og/eða alvarleika sjúkdómsins. Yfirstandandi rannsóknir muni vonandi varpa meira ljósi á þetta.