Vísindamenn á Ítalíu greindu frá því í dag að þeir hefðu fundið steinbyggðan skyndibitastað (lat. thermopolium) í einstöku ásigkomulagi í rústum borgarinnar Pompeii í Kampaníu á Ítalíu.
Skyndibitastaðurinn, sem var skreyttur með marglita mynstrum, var grafinn að hluta upp úr jörðu í fyrra en stutt er síðan hann var grafinn upp í allri sinni dýrð. Eins og aðrar minjar í Pompeii hefur staðurinn varðveist í gjósku sem flæddi yfir borgina árið 79 e.Kr. þegar eldfjallið Vesúvíus gaus og lagði borgina í eyði. Talið er að milli 2.000 og 15.000 manns hafi látist.
Með uppgreftrinum hafa vísindamenn öðlast nýja vitneskju um eldamennsku þess tíma. Rannsakendur fundu leifar af andabeinum en einnig leifar af svínum, geitum, fiski og sniglum í leirkrúsum. Sum innihaldsefnin höfðu verið elduð saman. Muldar hestabaunir, sem notaðar voru til að bragðbæta vín, fundust í einni krúsinni.
„Auk þess að vera vitnisburður um daglegt líf í Pompeii, þá eru rannsóknarmöguleikarnir sem felast í þessum steinbyggða skyndibitastað ótrúlegir því þetta er í fyrsta sinn sem við höfum grafið upp slíkan stað í heild,“ segir Massimo Osanna, yfirmaður fornleifarannsóknargarðsins í Pompeii.
Pompeii er næstvinsælasti ferðamannastaður Ítalíu á eftir Colosseum í Róm. Um fjórar milljónir ferðamanna heimsóttu rústir borgarinnar í fyrra.