Uppruni afbrigðis kórónuveirunnar sem kennt hefur verið við England og Bretland er á huldu. „Enska gerðin er uggvænleg“ þar sem hún virðist meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar, að mati Arnars Pálssonar, erfðafræðings og prófessors í lífupplýsingafræði við Háskóla Íslands.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í yfirgripsmiklu svari hans á Vísindavefnum. Þar svarar hann spurningunni: „Hvað er vitað um enska afbrigði veirunnar sem veldur Covid-19 og er það hættulegt?“
Fyrstu niðurstöður bresks veirusérfræðingateymis eru þær að smittíðni nýja afbrigðisins sé 71% hærri en annarra gerða. Einstaklingar sem smitast af afbrigðinu smita að meðaltali fleiri en þeir sem smitaðir eru af öðrum afbrigðum veirunnar.
„Uppruni þessarar gerðar veirunnar er á huldu en hún virðist hafa orðið til í Bretlandi eða mögulega Evrópu. Samkvæmt lögmálum þróunarfræðinnar er vitað að nýr erfðabreytileiki, sem leiðir til þess að veira smitast greiðar en aðrar gerðir, mun að öllum líkindum aukast í tíðni,“ segir í svari Arnars.
„Enska gerðin er uggvænleg því hún er meira smitandi. Blessunarlega er hún samt ennþá fátíð á heimsvísu, í Evrópu var hún metin í 7% tíðni. Þeirri tölu þarf þó að taka með miklum fyrirvara. Mat á tíðni gerða er ónákvæmt þar sem sýnataka er misjöfn eftir svæðum og löndum, og aðgengi að gögnum misjafnt.“
Stökkbreytingar sem breyta bindiprótíni veiru geta aukið möguleika veirunnar á að sýkja fólk hraðar, fyrr eða betur. Þá geta þær einnig valdið því að veirurnar sleppa undan ónæmiskerfinu. Veirur sem hafa þróast með mönnum í ár, áratugi eða lengur sýna það sem fræðimenn kalla vakaflökt.
„Sú staðreynd að tugmilljónir manna hafa nú smitast af veirunni sem veldur Covid-19 þýðir að stökkbreytingar sem verða veirunni til hagsbóta eru líklegar. Trevor Bedford, líffræðingur við Fred Hutchinson-rannsóknarstofnunina í Seattle, telur líklegt að veiran sem veldur Covid-19 muni þróast á þennan hátt og jafnvel sýna að endingu vakaflökt. Nýleg gögn um 229E-kórónuveiruna benda til að vakaflöktið breyti þeirri veiru nægilega til að hún geti sýkt sama einstakling aftur eftir þrjú ár. Líklegt er talið, en ósannað enn, að það sama gildi fyrir veiruna sem veldur Covid-19,“ skrifar Arnar.
„Gögnin frá Bretlandi benda til að ný gerð sem smitast hraðar hafi orðið til. Mögulega greindist hún fyrst þar í landi vegna góðrar vöktunar og margra tilfella, en líklegt er að aðrir undirstofnar veirunnar með svipaða eiginleika þróist í öðrum löndum. Þar sem bólusetning heillar þjóðar og heimsbyggðarinnar tekur tíma verðum við að viðhalda smitvörnum og skorðum á ferðalögum.“
Arnar segir að bóluefni gegn Covid-19 ætti að virka á enska afbrigðið og ólíklegt að þeir sem bólusettir eru geti smitast af enska afbrigðinu.
„Bóluefni byggt á erfðaefni veirunnar (mRNA) veitir vörn gegn smiti. Munurinn á enska afbrigðinu og öðrum stofnum veirunnar er smávægilegur.“
Ef svo ólíklega vill til að bóluefnin sem kynnt hafa verið virki ekki á eitthvert afbrigði veirunnar er þó öryggisnet til staðar.
„Talið er auðvelt að búa til aðra útgáfu bóluefnis sem passar betur við það afbrigði. Ugur Sahin, forstjóri BioNTech, sagði við fréttamenn í desember 2020 að það tæki um það bil sex vikur að útbúa nýjar útgáfur af bóluefninu sem BioNTech og Pfizer hafa sett á markað.“
Svar Arnars má lesa í heild sinni hér en þar er hægt að nálgast mun ítarlegri upplýsingar um málið.