Hin þrjú nýju afbrigði kórónuveirunnar – hvert hafa þau ferðast?

Vísindamaður sést hér skoða bóluefni gegn kórónuveirunni.
Vísindamaður sést hér skoða bóluefni gegn kórónuveirunni. AFP

Í dag er vitað um tvö ný afbrigði kórónuveirunnar sem ferðast nú um heiminn – og hugsanlega eru þau þrjú. Þessar uppgötvanir hafa flækt milliríkjasamgöngur enn meira en áður, þar sem ríkisstjórnir um allan heim setja nú strangari landamærareglur gagnvart fólki sem kemur frá þeim löndum sem fundið hafa eitthvert nýju afbrigðanna hjá sér.

Mikið hefur verið fjallað um „hið nýja afbrigði kórónuveirunnar“ (þ.e. fyrsta nýja afbrigðið), sem hefur verið áberandi á Bretlandseyjum og er talið vera 56% meira smitandi en það gamla, samkvæmt nýjustu rannsóknum.

Tvö bráðsmitandi afbrigði hjá Bretum

Fyrsta afbrigðið skaut upp kollinum í Englandi í nóvember, og hefur nú fundist í Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ástralíu, Japan og Singapúr. Allir sem greindust höfðu komið frá Bretlandi.

Þá hafa þrettán greinst á Íslandi með fyrsta afbrigðið, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Annað nýtt afbrigði, sem er mögulega enn meira smitandi en það fyrsta, fannst fyrst í Suður-Afríku og hefur nú einnig borist til Bretlands að sögn ríkisstjórnar landsins. Matt Hancock heilbrigðisráðherra Breta segir fréttir um annað afbrigðið vera „mikið áhyggjuefni þar sem það [...] virðist hafa stökkbreyst enn meira en fyrsta afbrigðið“.

Kórónuveiran stökkbreytist á tveggja vikna fresti að sögn sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.
Kórónuveiran stökkbreytist á tveggja vikna fresti að sögn sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. AFP

Þriðja afbrigðið?

Á aðfangadag tilkynnti æðsti embættismaður í lýðheilsumálum í Afríku að þriðja afbrigði kórónuveirunnar hefði skotið upp kollinum í Nígeríu. „[Afbrigðið] er algjörlega aðskilið því sem fannst í Bretlandi og Suður-Afríku,“ segir John Nkengasong, yfirmaður miðstöðvar sjúkdómavarna Afríku.

Vísindamenn eiga enn eftir að ákveða þýðingu þessara nýju afbrigða, en ljóst er að aukin smithætta af þeim er helsta áhyggjuefnið.

Vitað er að kórónuveiran „umbreytist reglulega; genamengi hennar stökkbreytist á tveggja vikna fresti“, að sögn CDC, sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, en flestar stökkbreytingarnar eru þýðingarlausar og auka ekki hættu veirunnar.

Þá hafa rúmlega 40 ríki þegar lokað landamærum sínum á komufarþega frá Bretlandi, og mun Ísland bætast í þann hóp eftir áramót.

Frétt Forbes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert