Ferðamönnum frá Suður-Ameríku er nú óheimilt að ferðast til Bretlands vegna afbrigðis kórónuveirunnar sem greindist fyrst í Brasilíu. Afbrigðið er talið mjög smitandi, eins og þau afbrigði sem fyrst greindust í Suður-Afríku og Bretlandi.
BBC greinir frá.
Öll afbrigðin eru talin meira smitandi en það sem kom faraldrinum af stað. Sérfræðingar hafa helst áhyggjur af ofantöldum þremur afbirgðum, því breska, brasilíska og suðurafríska.
Það á ekki að koma á óvart að ný afbrigði hafi þróast þar sem allar veirur stökkbreytast í þeim tilgangi að breiðast út og lifa af.
Stökkbreytingarnar sem einkenna afbrigðin þrjú eru allar á þá leið að breytingar hafa orðið á svokölluðu bindiprótíni veirunnar, þeim hluta veirunnar sem hún notar til að bindast mannlegum frumum. Þess vegna virðast þessi afbrigði vera betri í að bindast frumum og dreifa sér.
Breytingar á bindiprótíni suðurafríska afbrigðisins eru mögulega mikilvægari en þær á breska afbrigðinu.
Afbrigðin tvö deila einni stökkbreytingu en hið suðurafríska hefur einnig tvær stökkbreytingar í viðbót sem vísindamenn telja að geti haft meiri áhrif á það hvort bóluefni muni virka gegn því. Ein stökkbreytinga suðurafríska afbrigðisins getur hjálpað veirunni að komast fram hjá mótefni sem þegar hefur verið myndað, með bólusetningu eða fyrri sýkingu annars afbrigðis.
Brasilíska afbrigðið kom fyrst fram á sjónarsviðið í júlímánuði og fannst hjá fjórum ferðamönnum sem ferðuðust frá Brasilíu til Japan. Þrjár lykilbreytingar á bindiprótíni þess gera afbrigðið líkt suðurafríska afbrigðinu.
Nýja breska ferðabannið á við fólk sem hefur ferðast frá eða í gegnum Argentínu, Brasilíu, Bólivíu, Síle, Kólumbíu, Ekvador, Frönsku Gvæjönu, Gvæjönu, Paragvæ, Perú, Súrínam, Úrúgvæ og Venesúela á síðustu tíu dögunum fyrir áætlaða komu til Bretlands.
Ferðabannið á einnig við um Portúgal vegna sterkra tengsla landsins við Brasilíu, sem og Grænhöfðaeyjar og Panama.
Írskir og breskir ríkisborgarar mega þó snúa aftur til Bretlands hafi þeir ferðast til ofangreindra landa en þeir þurfa að sæta sóttkví í tíu daga við komuna til landsins.