Yfir 70 milljarðar í rannsóknar- og þróunarstarf

AFP

Heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2019 voru 70,8 milljarðar króna en það jafngildir 2,35% af vergri landsframleiðslu (VLF). Er þetta hæsta hlutfall útgjalda til málaflokksins af vergri landsframleiðslu sem mælst hefur frá því að Hagstofa Íslands tók við umsjón tölfræðinnar árið 2014.

Árið 2018 voru útgjöldin 56,9 milljarður króna (2,01%) og árið á undan 55,1 milljarðar króna (2,08%).

Gagnasöfnun Hagstofunnar nær yfir fyrirtæki, sjálfseignastofnanir, háskólastofnanir og aðrar opinberar stofnanir. Skiptast heildarútgjöldin þannig að útgjöld fyrirtækja og sjálfseignastofnana eru 48,7 milljarðar króna, útgjöld háskólastofnana 19,9 milljarðar og heildarútgjöld annarra opinberra stofnana 2,3 milljarðar króna.

Meðalútgjöld ríkja Evrópusambandsins til rannsókna og þróunarstarfs jukust úr 2,11% í 2,14% af vergri landsframleiðslu á milli áranna 2018 og 2019. Hæst var hlutfallið í Svíþjóð en það hækkaði úr 3,32% árið 2018 í 3,39% 2019. Hlutfallið var næsthæst í Austurríki (3,19%) og þar næst í Þýskalandi ( 3,17%). Á lista með ríkjum sambandsins auk Noregs var Ísland í sjöunda sæti að því er segir í fréttatilkynningu Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert