Fékk svar frá Musk eftir 154 tilraunir

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX.
Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX. AFP

Þolinmæði er dyggð. Það á hið minnsta við tölvuleikjaframleiðanda sem lengi hafði reynt að ná sambandi við stofnanda Tesla og Space X, Elon Musk. Eftir 154 tilraunir tókst framleiðandanum, Lyubomir Vladimirov, loks að ná athygli Musk. 

Vladimirov hafði heitið því að birta sömu skilaboðin til Musk á Twitter á hverjum degi í heilt ár. Tilgangurinn var að kanna hvort framleiða mætti tölvuleik sem innblásinn var af tilraunum SpaceX, en fyrirtækið hefur unnið að þróun geimflauga. 

Skilaboðin voru svo hljóðandi: „Kæri Elon, Ég er tölvuleikjaframleiðandi og er að búa til leik um ferð til mars með þér og SpaceX. Ef þér finnst þetta hljóma vel þá þarf ég einungis að fá samþykki frá þér hvað varðar notkun á nafni og vörumerkjum. Ég mun skrifa þetta á hverjum degi þar til ég fæ nei eða já“

Eftir um 22 vikur fékk hann loksins svar frá Musk. Það var stutt: „Þú getur stolið nafninu/vörumerkinu og við munum sennilega sleppa því að kæra þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert