Bóklestur og íþróttir eiga einstaklega vel saman

Átak knattspyrnumannsins Marcusar Rashford, sem snýst um að stuðla að …
Átak knattspyrnumannsins Marcusar Rashford, sem snýst um að stuðla að auknum lestri ungs fólks, getur í þessu samhengi virkað sem hvatning um að tengja saman lestur og íþróttir, segja greinarhöfundar. AFP

Knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford hefur beitt sér fyrir ýmsum málefnum og vill meðal annars auka áhuga á lestri meðal ungmenna. Her­mund­ur Sig­munds­son og Viðar Hall­dórs­son skrifa að nú sé lag að nýta frumkvæði Rashfords:

„Það er töff að lesa. Bækur eru töff,“ tísti enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford nú nýverið, við góðar undirtektir. Rashford, sem er 23 ára gamall leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, sem og einn verðmætasti knattspyrnumaður heims, hefur að undanförnu verið áberandi í baráttu sinni fyrir betri heimi, meðal annars því að vekja athygli á stöðu heimilislausra og að stuðla að því að nemendum í Bretlandi bjóðist ókeypis skólamáltíðir. Nú hefur Rashford sett lestur barna og ungmenna á oddinn og hefur hann meðal annars stofnað bókaklúbb í því skyni að auka aðgengi ungs fólks að áhugaverðum bókum og hvetja það til lesturs.

Vandamálið er ærið

Eins og áður hefur komið fram á þessum síðum þá er staða læsis meðal ungra íslenskra pilta sérstakt áhyggjuefni. Þrátt fyrir þau fjölmörgu lestrarátök sem ráðist hefur verið í hér á landi á undanförnum árum þá kunna um 40% pilta ekki að lesa eftir annan bekk, og hefur þeim sem ekki hafa náð tökum á lestri á þeim aldri fjölgað um 7% frá árinu 2002. Samkvæmt síðustu Pisa-könnun kemur enn fremur fram að um þriðjungur íslenskra pilta getur ekki skilið þann texta sem þeir eiga að lesa í skólanum. Vandamálið er ærið.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Norska …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi. Kristinn Magnússon

Við höfum hvatt til þess hér á þessum síðum að mikilvægt sé að nálgast vandamál pilta, til að mynda þegar kemur að lestri, með fjölbreyttum hætti og frá ýmsum hliðum. Grundvallaratriði í þessum efnum er að kveikja áhuga á lestri hjá þeim sem lesa ekki, með því að finna lesefni sem er á áhugasviði þeirra. Eitt helsta áhugamál ungra pilta eru íþróttir og talar átak Marcusar Rashford því beint inn í þennan hóp barna og ungmenna.

Hvetur til lesturs gegnum íþróttir

Það sem er sérstaklega áhugavert við átak hins unga Rashfords er að hann skorar þær viðteknu hugmyndir menntaelítunnar á hólm að bóklestur og íþróttir fari ekki saman. Þvert á móti þá gefur átak Rashfords í skyn að það sé einmitt heppileg leið til að auka bóklestur ungs fólks að hvetja til bóklesturs í gegnum íþróttirnar. Í kringum 90% barna hér á landi taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi á einhverjum tímapunkti í sinni æsku, og ná íþróttirnar því nánast til allra. Og það sem meira er, þá sækja iðkendur íþrótta í íþróttstarf af fúsum og frjálsum vilja, í sínum frítíma, og eru iðkendur því gjarnan mjög móttækilegir fyrir þeim skilaboðum sem þeir fá í gegnum íþróttastarfið. Orð og áherslur þjálfarans eru eitthvað sem fara á eftir.

Átak knattspyrnmannsins Marcusar Rashford, sem snýst um að stuðla að auknum lestri ungs fólks, getur í þessu samhengi virkað sem hvatning til að tengja saman lestur og íþróttir. Íþróttirnar geta verið heppileg leið til þess að stuðla að auknum lestri, skapandi skrifum og öðrum hugeflandi verkefnum ungu kynslóðarinnar. Slík samtenging íþrótta og lesturs er enn fremur í fullu samræmi við hið sögulega kjörorð íþrótta: „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ (Mens sana in corpore sano), sem höfð voru að leiðarljósi í Cambridge, Eton og Oxford þar sem grunnur að nútímaíþróttum var lagður á seinni hluta 19. aldar.

Lestur frekar en tölvuleikir?

Íþróttafélög hér á landi eru nú, sum hver, farin að bjóða börnum og ungmennum upp á spilun tölvuleikja innan sinna raða. Mörgum finnst skjóta skökku við að íþróttirnar séu að hvetja til enn frekari tölvuleikjaspilunar ungs fólks, sem nóg er af fyrir. Ef íþróttunum er á annað borð ætlað að hjálpa börnum og ungmennum að styrkjast, hvort sem er á sál eða líkama, ættu íþróttirnar þá ekki öllu frekar að gera átak í lestri? Lestrarfærni er jú lykillinn að velferð unga fólksins okkar. Lesturinn allt í senn stækkar sjóndeildarhring, eykur víðsýni, skilning, þekkingu, bætir svefn, dregur úr streitu og kvíða og gefur lesandanum kærkomið færi á að gleyma stað og stund, ná ró og friði, mitt í amstri hversdagslífsins.

Viðar Halldórsson er prófessor við Háskóla Íslands.
Viðar Halldórsson er prófessor við Háskóla Íslands. Árni Sæberg

Ávinningurinn af auknum lestri í kringum íþróttirnar er ekki einungis lestursins vegna heldur getur lesturinn einnig hjálpað íþróttakrökkunum að læra af bókum og læra af þeim bestu. Það er til fullt af afreksfólki í íþróttum hér á Íslandi og úti um allan heim sem hefur frá mörgu að segja. Afreksfólki sem á það sameiginlegt að hafa tekist á við alls kyns áskoranir, unnið stóra sigra en að sama skapi lent í alls kyns mótlæti á leiðinni.

Sumir hafa ekki verið taldir nógu góðir og ekki komist í liðið, aðrir glímt við kvíða, skort á sjálfstrausti, lent í slæmum meiðslum og svo framvegis. En allt hefur þetta afreksfólk sögu að segja. Sögu sem hægt er að læra af. Að vita hvað aðrir hafa gengið í gegnum til að ná árangri getur hvatt ungviðið til dáða, og getur einnig styrkt og hjálpað iðkendum þegar þeir sjálfir lenda í mótlæti og andstreymi á sinni vegferð síðar meir.

Af nógu að taka

Væri ekki upplagt ef íþróttafélög og þjálfarar myndu gera átak í því að hvetja iðkendur sína til að lesa, bæði sér til gagns og gamans? Af nógu er að taka. Til dæmis væri hægt að láta iðkendur lesa sögurnar um Víti í Vestmannaeyjum, Ungfrú fótbolta og Orra óstöðvandi; fjölbreyttar sögur Þorgríms Þráinssonar; bækur Arons Einars knattspyrnukappa eða Katrínar Tönju krossfimistjörnu; bækur Illuga Jökulssonar um knattspyrnustjörnurnar; bækur um hugarfar, jákvæða sálfræði eða eitthvað slíkt; eða bækur um einstök afrek eins og þegar Vilborg Arna gekk á Suðurpólinn eða ferð íslensku Everest-faranna. Nú eða hvetja ungviðið til að lesa uppbyggilega pistla á vefsíðum eins og: www.synumkarakter.is og www.klefinn.is. Marcus Rashford var orðinn 17 ára þegar hann byrjaði að lesa bækur og talar hann um að það hafi algjörlega breytt heimsýn sinni og hugarfari. Það er því aldrei of seint að byrja að lesa.

Að lesa bækur er mikilvægt fyrir lesskilning barna og ungmenna. Að skrifa texta er einnig mikilvæg leið til að auka lesskilning. Þannig má einnig hvetja börn og ungmenni í íþróttum til að skrifa um íþróttina sína, um íþróttahetjuna sína, eða skrifa hugleiðingar um liðsheild eða sjálfstraust, halda dagbók eða eitthvað slíkt. Slík verkefni þjálfa ekki einungis lestur og lesskilning iðkenda, heldur þjálfa þau einnig færni í skapandi skrifum og greinandi hugsun, og getur slík færni komið sér vel á íþróttavellinum sem og utan hans.

Okkar að nýta tækifærið

Við viljum því hvetja til þess að íþróttirnar og skólarnir endurveki þetta samband íþrótta og lesturs, til að mynda með því að setja á laggirnar bókaklúbba þar sem iðkendur íþróttafélaganna eru hvattir til þess að lesa, fá aðgang að bókum og vinna verkefni út frá lestrinum og draga lærdóm af honum í tengslum við íþróttirnar. Slík samvinna íþróttanna og skólans getur reynst iðkendum ómetanleg á leið þeirra að betri líðan og bættum árangri í íþróttunum, á sama tíma og aukinn lestur barna og ungmenna getur almennt reynst samfélaginu öllu happadrjúgur til lengri tíma litið. Því þegar öllu er á botninn hvolft má sjá að lestur og iðkun íþrótta eru einstaklega heppileg blanda við að stuðla að heilbrigðum sálum í hraustum líkömum.

Marcus Rashford er búinn að leika á mann og annan, senda okkur boltann, og við erum skyndilega komin í gott færi. Nú er það okkar að nýta tækifærið. Það er í höndum okkar fullorðna fólksins að vinna saman, með öllum mögulegum ráðum, að því að mynda umgjörð og aðstæður sem hjálpa ungdómnum að ná tökum á lestrinum. Sameiginlegt átak aðila eins og íþrótta og skóla getur reynst unga fólkinu okkar ómetanlegt í þeim efnum.

Hermundur er prófessor við Háskólann í Reykjavík og Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Viðar er prófessor við Háskóla Íslands.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert