„Ýmislegt sem á eftir að uppgötva“

Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor.
Magnús Karl Magnússon læknir og prófessor. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Ný rannsókn á erfðum og járnefnaskiptum líkamans leiðir í ljós erfðabreytileika sem hafa veruleg áhrif á tíðni blóðleysis af völdum járnskorts sem er landlægt víða um heim. Magnús Karl Magnússon vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir járnskipti hafa verið lítið rannsökuð. 

Rannsóknin birtist í tímaritinu Communications Biology í dag og er sú langstærsta á sínu sviði en hún var unnin af vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólki þeirra innan íslenska heilbrigðiskerfisins, Háskóla Íslands, Háskóla Kaupmannahafnar- og Cambridge háskóla.

Vísindamennirnir kortlögðu erfðabreytileika í erfðamengi mannsins sem hafa áhrif á járnefnaskipti líkamans en járn er eitt af þeim snefilefnum líkamans sem hvað oftast skortir, sérstaklega hjá börnum og konum á barneignaraldri. Þegar metin er byrði ýmissa sjúkdóma á heimsvísu vegur járnskortur og meðfylgjandi járnskortsblóðleysi mjög þungt.

Tvær hliðar á sama peningi 

„Við erum að reyna að skilja járnefnaskipti líkamans. Þetta er eitt af þeim sviðum í læknisfræðinni sem hefur kannski verið vanrannsakað á síðustu árum, þrátt fyrir að þetta sé stórt og mikilvægt vandamál. Okkur tókst að gera þessa rannsókn til að varpa ljósi á þessa erfðaþætti sem hafa áhrif á það hvernig líkaminn höndlar járnið sem inn í hann berst. Af hverju sumir eru útsettir fyrir að fá járnskort og af hverju aðrir hafa jafnvel tilhneigingu til að fá járnofhlaðningu sem er kannski hin hliðin á þessum peningi,“ segir Magnús Karl í samtali við mbl.is. 

Í rannsókninni voru arfgerðargögn tæplega 250.000 einstaklinga frá ÍE, danska blóðbankanum og blóðgjafarannsókn í Bretlandi skoðuð með víðtækri erfðamengisrannsókn auk þess sem rannsökuð voru áhrif erfðabreytileika á styrk blóðmælinga sem gefa til kynna járnefnaskipti.

Alls fundust 62 erfðabreytileikar sem tengjast járnefnaskiptum almennt, þar af 48 sem ekki var áður vitað að tengdust járni. Nokkrir þessara erfðabreytileika höfðu einnig áhrif á hvort einstaklingar þróa með sér járnskort eða járnofhleðslu.

Meðal merkustu uppgötvana var mislesturs-stökkbreyting í geni sem heitir DUOX2 og eykur líkurnar á járnskortsblóðleysi um 29%. Þessi erfðabreytileiki er til staðar í um 16% Íslendinga. Einnig fundust erfðabreytileikar í genum sem hafa áhrif á storknun blóðs og tengjast sérstaklega járnskortsblóðleysi hjá konum á barneignaraldri, sennilega með því að hafa áhrif á magn tíðablæðinga. Að lokum má nefna algengan erfðabreytileika í geni (TMPRSS6) sem dregur úr líkum á því að arfbundin járnofhleðsla komi fram.

Fundu fjölmarga þætti 

„Við fundum gífurlega marga þætti og kannski af því að þetta er vanrannsakað er ýmislegt sem á eftir að uppgötva. Það sem við höfum kannski helst áhuga á að skilja er af hverju sumir, og sérstaklega konur, eru útsettari fyrir að fá járnskort. Við fundum allnokkra erfðaþætti sem gátu spáð fyrir um það hvort að sumar konur séu útsettar fyrir því að fá járnskort en aðrar. Sterkasti erfðaþátturinn sem var óuppgötvaður og við fundum var DUOX2, en við vitum ekki alveg hvernig hann verkar. Nú bíður okkar að reyna að skilja það, en við teljum að það sé líklegt að hann styðji við það hvernig líkaminn frásögar járnið úr fæðunni,“ segir Magnús Karl . 

„Síðan voru aðrir þættir sem við fundum sem hafa eiginlega bara áhrif í konum. Það voru þá erfðaþættir sem kannski hafa meiri áhrif á það hversu mikið af járni líkaminn tapar. Það hefur sennilega áhrif hversu miklu blóði kona tapar við tíðablæðingar, en tíðablæðingar eru líklega skýringin á því af hverju konur eru útsettari fyrir járnskorti en karlar. Þetta gæti hjálpað okkur að skilgreina konur sem þurfa að vera sérstaklega á varðbergi. 

„Rannsóknin eykur þannig verulega skilning okkar á járnefnaskiptum líkamans. Hún varpar ljósi á ný stýriprótein sem hafa áhrif á mismunandi þætti í efnaskiptum járns, frásogi þess, flutningi um líkamann og tapi úr líkamanum, til dæmis við tíðablæðingar. Hún afhjúpar í fyrsta sinn algenga erfðabreytileka sem tengjast járnskorti,“ segir Magnús. 

Sjaldgæfari en meira rannsakaður

Auk járnskorts eru til sjúkdómar, meðal annars erfðasjúkdómar sem valda járnofhleðslu í líkamanum, og hafa í för með sér alvarlega fylgikvilla, svo sem liðverki, lifrarskorpu, lifrarkrabbamein, sykursýki og hjartavandamál. Rannsóknin getur einnig nýst til að skima fyrir og jafnvel koma i veg fyrir alvarlegar afleiðingar járnofhleðslu.

„Járnofhleðsla er sjúkdómur sem er sjaldgæfari en járnskortur, en hefur kannski meira verið rannsakaður erfðafræðilega. Við höfum jafnvel áhuga á því í náinni framtíð að nýta okkur þær erfðaupplýsingar sem til eru á Íslandi til að kortleggja þetta og geta þá kannski greint þá sem eru með ofhleðslu fyrr, áður en járnofhleðslan veldur klínískum vandræðum eða fer að valda usla í líkamanum,“ segir Magnús. 

„Það er tækifæri til að gera þetta hérna á Íslandi í tengslum við þær erfðaupplýsingar sem við höfum og getum kannski nýtt okkur til að greina þessa einstaklinga áður en sjúkdómurinn kemur fram. Þessi sjúkdómur er lúmskur því einkennin koma seint fram og einstaklingar greinast oft ekki fyrr en hann er farin að hafa áhrif, en það er auðvelt að meðhöndla hann ef hann greinist snemma. Það er hægt að koma í veg fyrir fylgikvillana með einföldum inngripum,“ segir Magnús. 

Hann segir að járnskortur geti sömuleiðis verið lúmskur sjúkdómur, en veigameira er þó hvað hann sé útbreiddur. 

„Járnskorturinn er miklu stærra vandamál en járnofhleðslan því hann er svo algengur, kannski sérstaklega er hann vandamál í þriðja heiminum sem er kannski ástæðan fyrir því að við höfum ekki beint sjónum að þessu fyrr. Þegar við lítum á sjúkdómsbyrgði í heiminum er járnskortur með einna þyngstu byrðina vegna þess hve algengur hann er hjá til dæmis konum á barneignaraldri í Afríku. Það skiptir miklu máli að fá innsýn í þennan sjúkdóm frá sem flestum sjónarhornum því hann er svo algengur,“ segir Magnús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert