Lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson óskaði í gær eftir bráðaleyfi fyrir bóluefni fyrirtækisins við Covid-19 í Bandaríkjunum. Ólíkt þeim bóluefnum sem þegar hafa fengið markaðsleyfi í Evrópu og Norður-Ameríku þarf aðeins að bólusetja í eitt skipti með bóluefni J&J.
Ef bóluefnið verður samþykkt af Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) er það þriðja bóluefnið sem fer á markað þar. Meðferð þessa bóluefnis er aftur á móti miklu einfaldari en Pfizer og Moderna þar sem ekki þarf að geyma þetta bóluefni við mikið frost eins og þau.
Samningur Íslands við Janssen, sem er dótturfyrirtæki Johnson & Johnson í Evrópu, var undirritaður 22. desember 2020. Mat evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) er forsenda markaðsleyfis. Áætlað er að EMA gefi út álit í febrúar 2021. Ísland fær bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga. Áætlað er að byrja afhendingu á öðrum ársfjórðungi.
Aftur á móti leiddu klínískar rannsóknir í ljós að bóluefni J&J veitir ekki jafn mikla vörn og hin þegar kemur að bráðsmitandi afbrigði sem fyrst greindist í Suður-Afríku. Sérfræðinganefnd FDA mun hittast á fundi 26. febrúar til að fara yfir beiðni J&J.
J&J segir að ef bóluefnið fær leyfi þá sé fyrirtækið tilbúið með 100 milljónir skammta af bóluefni til afhendingar í Bandaríkjunum fyrir lok júní. Það er gríðarlegt magn ef haft er í huga að 320 milljónir búa í Bandaríkjunum og aðeins þarf einn skammt af bóluefninu.