Íslendingar bera höfuð og herðar yfir aðra Evrópubúa í notkun snjallúra og annarra nettengdra tækja sem menn bera á sér á borð við heilsuúr, armbönd og snjallgleraugu samkvæmt samanburði Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Í nýjum samanburði Eurostat á notkun nettengdra snjalltækja á árinu 2020 í 26 löndum Evrópu segir að 72% Íslendinga á aldrinum 16 til 74 ára beri snjallúr eða sambærilegan búnað sem tengja má við netið. Næstu þjóðir í röðinni eru vart hálfdrættingar á við Íslendinga. 35% Tékka og 34% Norðmanna á þessum aldri eru sögð nota heilsuúr. Meðaltalið í löndum Evrópusambandsins er 19%. Fram kemur m.a. að 7% Grikkja, 13% Pólverja, 22% Þjóðverja og 33% Finna voru með nettengd snjallúr, armbönd eða önnur nettengd tæki á sér á þessu tímabili sem samanburðurinn tekur til.