Ungt fólk greinir frá meiri streitu og einmanaleika, metur andlega heilsu sína verri og upplifir minni hamingju og velsæld en þeir sem eldri eru. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Talnabrunni landlæknis þar sem greint er frá niðurstöðum mælinga á andlegri heilsu, svefni, streitu, einmanaleika, hamingju og velsæld Íslendinga.
„Einnig má víða sjá mun á milli kynja. Andleg heilsa virðist langsamlega verst meðal ungra kvenna en aðeins helmingur þeirra metur andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Sömuleiðis greina konur frá mun meiri streitu en karlar og er sá munur einkar áberandi meðal yngstu aldurshópanna. Konur á miðjum aldri (45-64 ára) greina einnig frá meiri einmanaleika en karlar. Aftur á móti eru karlar hlutfallslega fleiri í hópi þeirra sem sofa of lítið og færri karlar en konur telja sig mjög hamingjusama, einkum í aldurshópnum 35-54 ára. Mesta breytingin á hamingju yfir tíma kemur aftur á móti fram hjá ungum konum, þar sem marktæk lækkun varð á hlutfalli þeirra sem telja sig mjög hamingjusamar,“ segir í samantekt.
Höfundar greinarinnar benda á ákveðnar langtímabreytingar sem vert sé að veita athygli. Hefur orðið jákvæð hægfara þróun á svefni fullorðinna á síðustu árum þar sem fleiri ná fullum svefni en áður og færri sofa of lítið. Hins vegar hefur átt sér stað neikvæð þróun til lengri tíma hvað einmanaleika varðar en hlutfall þeirra sem segjast finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika hefur tæplega tvöfaldast á síðustu fimm árum.
Einmanaleikinn er sérstaklega áberandi meðal ungs fólks. Hlutfall þeirra sem segjast finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika er áberandi hæst eða 25% meðal 18 til 24 ára og jókst umtalsvert í fyrra en á móti sögðust aðeins 6% fólks 65 ára og eldri finna oft fyrir einmanaleika.
Af niðurstöðunum má ráða að andlegri heilsu Íslendinga hafi hrakað nokkuð á síðasta ári en tæplega þrír af hverjum fjórum mátu andlega heilsu sína góða eða mjög góða í fyrra og lækkar hlutfallið úr 76% á árinu 2019 í 72% í fyrra.
Konur, sérstaklega í yngri aldurshópunum, skera sig úr þegar spurt er um streitu í daglegu lífi. Þetta hefur komið fram í fyrri mælingum úr vöktun landlæknisembættisins. Í fyrra var hlutfall kvenna sem sögðust finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu 28% samanborið við 25% meðal karla en ef litið er á yngri aldurshópa kvenna kemur í ljós að um 46% kvenna á aldrinum 18-24 ára greina frá mikilli streitu í daglegu lífi og hlutfallið er litlu lægra meðal 25-34 ára (42%) og 35-44 ára (39%). Tæplega 40 prósentustig skilja á milli yngsta aldurshópsins og þess elsta hvað streituna varðar.
Höfundar greinarinnar velta fyrir sér hvaða möguleg áhrif veirufaraldurinn í fyrra hefur á líðan fólks skv. könnuninni. Gögnin sýni að færri mátu andlega heilsu sína góða og töldu sig mjög hamingjusama árið 2020 en árið á undan. Óvíst sé þó hvort rekja megi það til faraldursins þar sem mælingar á einmanaleika voru svipaðar árin 2018 og 2020. Þá komi í ljós að litlar breytingar urðu heilt yfir á svefni og streitu á síðasta ári miðað við árin þar á undan.
Landlæknir vaktar helstu áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðunar og hefur Gallup lagt kannanir árlega frá 2016 fyrir úrtak fullorðinna af öllu landinu. Úrtakið hefur stækkað með árunum og er nú um 10.000 manns.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. mars.