Samstarfsvettvangur Vísindaþorpsins í Vatnsmýri var formlega stofnaður í dag, sem hefur ekki síður alþjóðlega skírskotun undir formerkjum „Reykjavík Science City.“ Íslandsstofa sér um alþjóðlega markaðssetningu verkefnisins.
Mikil uppbygging hefur verið á svæðinu og enn meiri er í farvatninu, eins og lesa má um hér. Áherslan á svæðinu er á líftækni og heilsutengda tækni og samruna háskólastarfs og atvinnulífs.
Borgarstjórinn í Reykjavík, rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, forstjóri Landsspítala Íslands og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands skrifuðu undir samning um nýjan sameiginlegan vettvang við stutta athöfn við Norræna húsið í dag
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í tilkynningu að nálægð Landspítala við Vísindaþorpið skipti lykilmáli. „Vísindaþorpið eflir okkar umfangsmikla rannsóknastarf og kennslu og það mun ýta undir aukið vísindastarf innan heilbrigðiskerfisins.“
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, skrifaði einnig undir samninginn í dag. „Það er spennandi verkefni að markaðssetja Vatnsmýrina sem ákjósanlegan stað fyrir þekkingaruppbyggingu framtíðar. Víðs vegar á Norðurlöndunum, og víðar, hefur slík vinna skilað miklum árangri og tækifærum fyrir samfélagið.
Það er eitt af markmiðum útflutningsstefnu stjórnvalda að stórauka hlut þekkingariðnaðarins í öflun útflutningstekna og það er ánægjulegt að sjá þá stefnu færða í verk með þessum hætti,“ sagði Pétur í tilkynningu.
Vísindaþorpið samanstendur af háskólum, háskólasjúkrahúsi, þekkingarfyrirtækjum, vísindagörðum, frumkvöðlasetrum, íbúðum fyrir almenning og stúdenta, þjónustu, verslun, afþreyingu, menningu og grunn- og leikskólum í nánum tengslum við náttúru, útivist og almenningsrými.
Miðstöð fyrir borgarlínuna verður einnig á svæðinu, eins og lesa má um hér.