Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO sagði að allar tilgátur varðandi uppruna kórónuveirunnar væru enn á borðinu og rannsaka þyrfti málið frekar. Sú rannsókn yrði byggð á skýrslu sérfræðinga sem hafa verið að störfum í Wuhan í Kína.
Nefndin telur að veiran hafi fyrst borist í menn frá leðurblöku með milligöngu annars dýrs og að engar líkur sé á að veiran eigi upptök sín í rannsóknarstofu.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sagði að sérfræðingarnir sem fóru til Wuhan myndu kynna niðurstöður sínar fyrir aðildarríkjum WHO á morgun.
Í framhaldi af því myndi skýrsla þeirra verða aðgengileg á vef WHO.
„Það verður mjög mikilvægt að hlusta á það sem þeir hafa fram að færa,“ sagði Tedros á fréttamannafundi í dag.
Fram kemur í niðurstöðu sérfræðinganna að kenningin um að veiran hafi borist í menn úr tilraunastofu sé afar ólíkleg.