Bíða með bóluefnið

00:00
00:00

Jans­sen hef­ur gert hlé á send­ing­um á bólu­efni til þeirra ríkja sem eiga aðild að bólu­efna­sam­starfi Evr­ópu­sam­bands­ins. Fyrsti skammt­ur­inn kom hingað til lands í morg­un en hann bíður á meðan rann­sakað er hvort bólu­efnið teng­ist sjald­gæfri teg­und blóðtappa.

Banda­rík­in, Suður-Afr­íka og ríki Evr­ópu­sam­bands­ins auk Íslands og Nor­egs hafa frestað notk­un á bólu­efni John­son & John­son (J&J) og dótt­ur­fé­lags þess, Jans­sen, eft­ir að til­kynnt var um mögu­leg tengsl þess við afar sjald­gæfa teg­und blóðtappa. Fyrstu ein­stak­ling­arn­ir í ríkj­um ESB voru bólu­sett­ir með bólu­efn­inu í gær en notk­un þess var hætt fljót­lega þann sama dag.

John­son & John­son er banda­rískt fyr­ir­tæki á heil­brigðis­sviði. Bólu­efnið er aft­ur á móti þróað og fram­leitt af lyfja­fyr­ir­tæki í þess eigu, Jans­sen, sem er með höfuðstöðvar í Belg­íu.

Guar­di­an

BBC

Fyr­ir­tækið hef­ur ákveðið sam­hliða þessu að gera hlé á send­ing­um á bólu­efn­inu til ríkja sem eiga aðild að bólu­efna­sam­starfi ESB á meðan rann­sókn stend­ur yfir. Um er að ræða svipuð mál og þau sem áður höfðu komið upp varðandi AztraZeneca enda bólu­efn­in af sam­bæri­legri gerð. 

Matt­hew Snape, pró­fess­or í barna­lækn­ing­um og ónæm­is­fræði við Oxford-há­skóla, seg­ir að ýms­ar auka­verk­an­ir geti komið upp þegar bólu­sett er og það hafi verið vitað fyr­ir fram. Hann stýr­ir rann­sókn á því hvort ör­uggt sé að blanda sam­an bólu­efn­um, það er að gefa eitt bólu­efni við fyrri bólu­setn­ingu en annað í þeirri síðari.

Fram hef­ur komið að rann­sókn­ir á dýr­um bendi til þess að sé það gert séu aukn­ar lík­ur á meira ónæmi en ann­ars væri en að sögn Snape er ekki hægt að full­yrða neitt um áhrif­in á fólk fyrr en niður­stöður rann­sókna liggi fyr­ir. 

Þróun þess­ara bólu­efna er kom­in mis­langt á veg. Sum þess­ara bólu­efna eru af nýrri gerð sem bygg­ir á því að bólu­efnið inni­held­ur hluta af erfðaefni veirunn­ar (mRNA) sem veld­ur því að frum­ur lík­am­ans fara að fram­leiða gadda­pró­tín (e. spike proteins) veirunn­ar en ónæm­is­kerfið ræðst að þess­um fram­andi pró­tín­um og eyðir þeim.

Ef bólu­setn­ing­in tekst ger­ist það sama ef veir­urn­ar kom­ast inn í lík­amann, ónæm­is­kerfið (bæði mót­efni í blóði og svo­kallaðar T-frum­ur) ræðst gegn þeim og ger­ir þær óvirk­ar. Þessi aðferð hef­ur ekki verið notuð áður til að fram­leiða bólu­efni við sýk­ing­um en mikl­ar von­ir eru bundn­ar við aðferðina. Bólu­efni Ffizer-Bi­oNTech eru svo­kölluð mRNA-bólu­efni en AstraZeneca og Jans­sen virka með því að und­ir­búa lík­amann til að verj­ast sýk­ingu af völd­um kór­ónu­veirunn­ar SARS-CoV-2. Veir­an not­fær­ir sér „gadda­prótein“ á yf­ir­borði sínu til að kom­ast inn í frum­ur lík­am­ans og valda sjúk­dómi. 

Slík bólu­efni inni­halda adenóveiru sem breytt hef­ur verið á þann veg að hún inni­held­ur gena­upp­lýs­ing­ar til að fram­leiða um­rædd gadda­prótein. Sú veira get­ur hins veg­ar hvorki fjölgað sér né valdið sjúk­dómi. Þegar bólu­efnið hef­ur verið gefið fara gena­upp­lýs­ing­arn­ar úr adenóveirunni inn í frum­ur lík­am­ans sem hefja fram­leiðslu á gadda­prótein­um.

Ónæmis­kerfið lít­ur á þau sem fram­andi fyr­ir­bæri og hef­ur varn­ir með því að fram­leiða mót­efni og T-frum­ur gegn veirunni. Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkom­andi ein­stak­ling gegn sýk­ingu af völd­um SARS-CoV-2-kór­ónu­veirunn­ar, þar sem ónæmis­kerfið kem­ur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni; mót­efni og T-frum­ur vinna sam­an að því að drepa veiruna, meina henni aðgang í frum­ur og drepa sýkt­ar frum­ur, og þar með verja ein­stak­ling­inn gegn Covid-19 að því er seg­ir á vef Lyfja­stofn­un­ar.

Vís­inda­vef­ur Há­skóla Íslands

Öll sex til­vik­in sem eru til rann­sókn­ar í Banda­ríkj­un­um eru meðal kvenna á aldr­in­um 18 til 48 ára. Þær veikt­ust 6-13 dög­um eft­ir að hafa verið bólu­sett­ar með bólu­efni Jans­sens.

Að ráðlegg­ing­um Mat­væla- og lyfja­eft­ir­lits Banda­ríkj­anna (FDA) hef­ur bólu­setn­ing­um með bólu­efn­inu verið hætt alls staðar á veg­um al­rík­is­stjórn­ar­inn­ar í Banda­ríkj­un­um. Fast­lega er gert ráð fyr­ir að aðrir þeir sem koma að bólu­setn­ing­um, það er ein­stök ríki og einkaaðilar, fylgi í kjöl­farið. 

Hvergi í heim­in­um hafa jafn marg­ir veikst og um leið dáið af völd­um Covid-19 og í Banda­ríkj­un­um. Staðfest smit eru yfir 31 millj­ón og 562 þúsund eru látn­ir.

Ólíkt öðrum bólu­efn­um þarf aðeins einn skammt af bólu­efn­inu frá Jans­sen og það er hægt að geyma í kæliskáp sem ger­ir það um­tals­vert þægi­legra í notk­un, ekki síst á fjar­læg­um stöðum og slóðum þar sem lofts­lagið er hlýrra en í Evr­ópu og Norður-Am­er­íku.  

Á sama tíma og mörg ríki hafi pantað millj­ón­ir skammta hef­ur það aðeins hlotið samþykki í fáum. Í Banda­ríkj­un­um hlaut það markaðsleyfi 27. fe­brú­ar en þar í landi hafa bólu­efni Pfizer-Bi­oNTech og Moderna verið notuð mun meira. Jans­sen-bólu­efnið hef­ur þegar verið notað við bólu­setn­ing­ar á um 7 millj­ón­um í Banda­ríkj­un­um eða um 3% af þeim sem þegar hafa verið bólu­sett­ir við Covid-19 þar í landi.

Ant­hony Fauci, einn helsti sér­fræðing­ur Banda­ríkj­anna á svið far­sótt­ar­inn­ar, seg­ir að of snemmt sé að full­yrða hvort eigi að aft­ur­kalla markaðsleyfi bólu­efn­is­ins. 

Suður-Afr­íka hef­ur ákveðið að hætta að nota bólu­efnið frá Jans­sen þrátt fyr­ir að ekki hafi komið upp nein blóðtappa­til­vik tengd bólu­setn­ingu þar. Jans­sen-bólu­efnið er talið virka bet­ur á það stökk­breytta af­brigði veirunn­ar sem fyrst greind­ist í Suður-Afr­íku og er búið að bólu­setja 300 þúsund heil­brigðis­starfs­menn með því þar í landi. 

Samn­ing­ur Íslands við Jans­sen var und­ir­ritaður 22. des­em­ber 2020. Evr­ópska lyfja­stofn­un­in (EMA) hélt mats­fund vegna Jans­sen 11. mars 2021, fram­kvæmda­stjórn ESB veitti bólu­efn­inu skil­yrt markaðsleyfi í kjöl­farið auk þess sem Lyfja­stofn­un hef­ur veitt bólu­efn­inu skil­yrt markaðsleyfi á Íslandi. Ísland fær bólu­efni fyr­ir 235.000 ein­stak­linga. Áætlað er að byrja af­hend­ingu á öðrum árs­fjórðungi, í seinni hluta apr­íl­mánaðar, að því er seg­ir á covid.is.

Fjöldi Evr­ópu­sam­bands­ríkja er far­inn að huga að því að semja um bólu­efni gegn Covid-19 utan bólu­efna­sam­starfs Evr­ópu­sam­bands­ins og eru nokk­ur þeirra nú þegar far­in að semja utan þess að því er fram kem­ur í frétt Morg­un­blaðsins 3. mars. Þar seg­ir að yf­ir­völd í Póllandi, Slóvakíu, Ung­verjalandi og Tékklandi hafi öll gert ráðstaf­an­ir til að tryggja sér bólu­efni utan Evr­ópu­sam­bands­ins. 

Júlía Rós Atla­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Distica, seg­ir að í morg­un hafi komið til lands­ins 2.400 skammt­ar af bólu­efn­inu frá Jans­sen og eru þeir í geymslu þangað til annað verður ákveðið. Júlía Rós sagði í morg­unþætti Rás­ar 1 í morg­un að hún telji að við vær­um í verri stöðu varðandi bólu­efni ef við hefðum ekki farið í sam­starf við Evr­ópu­sam­bandið. Hún tek­ur þar und­ir það sem Ingi­leif Jóns­dótt­ir, pró­fess­or í ónæm­is­fræði, sagði í Frétta­blaðinu í gær.

„Við sem lít­il þjóð hefðum aldrei getað samið við öll þessi fyr­ir­tæki upp á eig­in spýt­ur, vit­andi ekk­ert um hvað yrði viður­kennt, hraða og fram­leiðslu­getu þegar samn­ing­ar hóf­ust,“ seg­ir Ingi­leif.

Stjórn­völd hafa rætt við fyr­ir­tæk­in fyr­ir utan sam­starfið en Ingi­leif ef­ast um að ár­ang­ur­inn væri jafn mik­ill utan Evr­ópu­sam­starfs­ins.

Júlía seg­ir að hún hafi verið spurð hvort þau hefðu ein­hver sam­bönd en svo sé ekki. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert