„Kerfið sem Origo hefur þróað heldur utan um alla þá einstaklinga sem þurfa á bólusetningu að halda og í kerfinu er hægt að skrá í þá forgangshópa sem hafa verið skilgreindir. Vegna þess að bóluefnin eru mismunandi hefur kerfið verið forritað á þann hátt að einstaklingar eru kallaðir inn á mismunandi vegu eftir hverju bóluefni.“
Þetta segir Arna Harðardóttir, viðskiptastjóri hjá Origo, en fyrirtækið hefur þróað kerfi sem heldur utan um bólusetningar gegn kórónuveirunni og stýrir einnig flæði einstaklinga á bólusetningarstað.
Í tilkynningu frá Origo er tekið fram að skráningin sé mjög einföld og byggi á því að einstaklingur fái sent strikamerki með SMS-skilaboðum.
„Þegar einstaklingur er bólusettur er strikamerkið skannað og fara þá sjálfkrafa upplýsingar um bólusetninguna inn í öll kerfi heilbrigðiskerfisins. Upplýsingarnar um bólusetninguna eru þá komnar inn í bólusetningargrunn sóttvarnalæknis, sjúkraskrá einstaklings og inn í Heilsuveru, sameiginlega heilbrigðisgátt Íslendinga,“ segir Arna.
„Þar birtist síðan bólusetningarvottorð einstaklings, en Ísland var fyrst þjóða til að gefa út rafrænt bólusetningarvottorð.“
Arna segir að bólusetningarkerfið passi að flæði og skipulag á bólusetningarstað sé gott.
„Mikilvægt er að álagið sé jafnt og ekki of margir mæti á sama tíma. Ísland stendur mjög framarlega hvað varðar skipulag bólusetninga og utanumhald. Ísland er komið mjög langt í stafrænni þróun og sjálfvirknivæðingu heilbrigðiskerfisins. Íslenskt heilbrigðiskerfi er einstaklega öruggt og gagnsætt vegna mikilla samtenginga milli kerfa,“ segir hún og bætir við að heilbrigðislausnir Origo hafi verið leiðandi í þróun á þeim rafrænu innviðum og kerfum sem eru til staðar í íslensku heilbirgðiskerfi.
„Þessir rafrænu innviðir og kerfi gera það að verkum að hægt var að þróa bólusetningarkerfi hratt svo hægt væri að bólusetja Íslendinga á öruggan hátt.“