ESB kærir Apple

Evrópusambandið hefur lagt fram kæru á hendur Apple en sambandið sakar tæknifyrirtækið um alvarlegt brot á samkeppnislögum með því að mismuna streymisveitum í App Store.

Kæran byggir á óánægju fyrirtækja með þau skilyrði sem Apple App Store setur og eins þau gjöld sem greiða þarf fyrir aðgang að veitunni.

Í tilkynningu segir Margrethe Vestager, sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB, að vegna harðra reglna sem gildi hjá App Store sé öðrum tónlistarstreymisveitum nánast gert ómögulegt að bjóða upp á þjónustu sína þar. 

Kæran byggir á kvörtun sænsku streymisveitunnar Spotify sem sakar Apple um að hirða 30% hlut af notkun Spotify í gegnum App Store. 

Málið er eitt fjögurra sem framkvæmdastjórn ESB hóf gegn Apple í fyrra. 

Talsmaður Apple hafnar alfarið ásökunum ESB um að það noti App Store með ólöglegum hætti til þess að hamla rekstri annarra streymisveita. Hann segir að Spotify vilji fá allan ávinninginn frá App Store án þess að greiða fyrir það. Að krafa ESB gagni gegn eðlilegri samkeppni. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert