Samskiptafyrirtækið Verizon seldi fjölmiðlafyrirtækin Yahoo og AOL í dag. Heildarsöluvirðið, samkvæmt breska ríkisútvarpinu, var fimm milljarðar bandaríkjadala og voru fyrirtækin seld bandarískum fjárfestingasjóði.
Yahoo og AOL voru bæði meðal stærstu fjölmiðlafyrirtækja heims um síðustu aldamót. Voru þau brautryðjendur í því að veita notendum netsins ókeypis aðgang að ýmsum þjónustum eins og tölvupósti og spjallveitum.
Halla tók undan fæti, meðal annars vegna harðnandi samkeppni við aðra keppinauta á netinu og fjölda misheppnaðra fjárfestinga. Í seinni flokknum má t.d. nefna kaup Yahoo á bloggsíðunni Tumblr og fréttasíðunni Huffington Post sem ekki skiluðu þeim hagnaði sem búist var við.
Verizon keypti AOL árið 2015 og Yahoo árið 2017 og greiddi samtals 9 milljarða bandaríkjadala fyrir bæði fyrirtækin. Verizon vonaðist til þess að kaupin myndu gera því kleift að keppa við stærstu netfyrirtækin, þar á meðal Google og Facebook. Allt kom fyrir ekki og voru Yahoo og AOL því seld samhliða áformum Verizon um að einbeita sér að fjarskiptasviði þess og stækkun 5G-nets þeirra.