B.1.617.2 vekur ugg á Englandi

Ekki er vitað hversu mörg smitanna á Englandi megi rekja …
Ekki er vitað hversu mörg smitanna á Englandi megi rekja til ferðamanna. AFP

Embætti landlæknis á Englandi, Public Health England (PHE), mælir með því að eitt afbrigði kórónuveirunnar sem nú geisar á Indlandi verði sett á varúðarlista í Bretlandi. 

Samkvæmt frétt BBC fylgist stofnunin grannt með þróun mála en um er að ræða afbrigði veirunnar sem nefnist B.1.617.2  og virðist dreifast mun hraðar en tvö önnur stökkbreytt afbrigði veirunnar sem geisa á Indlandi. 

Vísindamenn telja að þetta afbrigði sé að minnsta kosti jafn bráðsmitandi og það afbrigði sem fyrst var greint í Kent á Englandi í fyrra (B.1.1.7).

Talsmaður PHE segir í samtali við BBC að stofnunin muni ekki tjá sig um þessar upplýsingar sem hefur verið lekið úr stofnuninni. 

Veirur af öllum toga stökkbreytast reglulega og búa þannig til ný afbrigði af sjálfum sér. Flestar slíkar stökkbreytingar eru léttvægar og jafnvel gera veirur minna hættulegar en aðrar geta verið mun meira smitandi og um leið erfiðara að bólusetja fyrir þeim.

Afbrigði sem fyrst greindust í Kent, Suður-Afríku og Brasilíu hafa öll verið skilgreind í Bretlandi sem afbrigði sem þarf að hafa sérstakar áhyggjur af. Þessi afbrigði ásamt því indverska hafa öll breyst, það er gaddaprótein þeirra en gaddapróteinið er sá hluti veirunnar sem ræðst á frumur mannslíkamans. 

Indverska afbrigðið, B.1.617, var fyrst greint á Indlandi í október. Nú hefur það afbrigði stökkbreyst í þrjár nýjar stökkbreyttar gerðir.

Í Bretlandi hefur smitum af afbrigðinu B.1.617.2 fjölgað hratt að undanförnu en það afbrigði er algengast á Indlandi þessa dagana. Er talið að það sé meira bráðsmitandi en aðrar gerðir veirunnar.

Talið er að yfir 500 smit  B.1.617.2-afbrigðisins hafi greinst á Englandi að undanförnu, einkum í London og norðvesturhluta Englands. Þann 28. apríl höfðu verið staðfest 202 smit af því afbrigði í Bretlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert