Deildarmyrkvi fyrir sól á Íslandi í júní

Hringmyrkvi sem var á Íslandi árið 2003 en Íslendingar munu …
Hringmyrkvi sem var á Íslandi árið 2003 en Íslendingar munu sjá annan svipaðan þessum 10. júní. mbl.is/RAX

Sólmyrkvi verður á landinu öllu þann 10. júní næstkomandi. Hámark sólmyrkvans verður klukkan 10:17 þegar tunglið mun hylja tæplega 70 prósent sólarinnar en hægt verður að sjá sólmyrkvann á milli 09:06 og 11:33 þann morgun.   

Sæv­ar Helgi Braga­son, umsjónarmaður Stjörnu­fræðivefs­ins, segir að þetta sé mesti sólmyrkvi sem orðið hafi á Íslandi síðan árið 2015. „Þetta er einnig mesti myrkvi sem við sjáum þangað til 2026 þegar við fáum almyrkva.“

Að sögn Sævars er Ísland því miður ekki á besta stað fyrir fallegasta sjónarspil sólmyrkvans. „Við erum ekki á alveg réttum stað til þess að sjá tunglið fara alveg fyrir sólina. Sá hluti sést best frá Norðurpólnum, Grænlandi, Kanada og Rússlandi."

„Tunglið okkar er aðeins of langt frá jörðinni til að hylja sólina alla og þá verður ekki almyrkvi núna heldur hringmyrkvi. Við fáum því miður ekki almyrkva að þessu sinni en við þurfum að bíða í fimm ár til viðbótar eftir slíku sjónarspili.“

Fólk ekki endilega vart við birtubreytingar

Sævar Helgi segir að myrkvinn muni ekki vera jafn mikill og sá sem var árið 2015 en þá var 97 prósent sólar hulin af tunglinu. „Fólk verður ekki eins áþreifanlega vart við miklar birtubreytingar eins og þá var en það gæti tekið eftir því þegar myrkvinn nær hámarki, þá er kannski ögn dimmara yfir heldur en alla jafna. En svo venjast augu okkar birtubreytingunni svo hratt að fæstir sennilega taka eftir því nema þau séu með gleraugu að horfa í átt til sólar.“

Sérstakra hlífðargleraugna er krafist til þess að hægt er að fylgjast með sólmyrkvanum. „Fólk sem á gleraugun frá því fyrir sex árum síðan, það ætti að endilega nýta tækifærið og gjóa augunum að þessu þennan morgun og sérstaklega sýna krökkunum sínum,“ segir Sævar Helgi um atburðinn.

Ef fólk er ekki með slíkan hlífðarbúnað og getur ekki nálgast hann í tæka tíð bendir Sævar Helgi á að í nauð geti fólk notað logsuðugleraugu með nokkuð góðum styrkleika.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert