Einstaklingar sem hafa orðið fyrir mænuskaða, eða annars konar kvillum sem hamla hreyfingu, gætu brátt átt kost á að skrásetja hugsanir sínar á hraða sem er sambærilegur handskrift. Þetta kemur fram í frumniðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem framkvæmd var við Stanford-háskólann.
Til þessa hafa hreyfihamlaðir getað smellt á stafi á stafrænu lyklaborði með hjálp heilaskanna en hin nýja tækni er töluvert hraðvirkari. Í stað þess að færa músabendil hugsa notendur um aðgerðina að handskrifa og skanninn greinir hvaða staf notandinn er að hugsa um.
Haft er eftir Frank Willett, sem fór fyrir rannsókninni, að í tilraunaverkefninu hafi einstaklingur sem var lamaður fyrir neðan mitti farið úr því að geta skráð 40 tákn á mínútu upp í 90.
Tæknin notar algóriþma til að lagfæra villur og þekkja „handskrift“ heilans betur, það er gert á svipaðan hátt og snjallsímalyklaborð læra á villur mannanna. Rannsakendur slógu þó varnagla við og bentu á að rannsóknin byggist á niðurstöðu eins einstaklings og því megi ekki draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðum þeirra. Þeir vonast þó til þess að koma búnaðinum í dreifingu innan nokkura ára.