Lyfjafyrirtækin Sanofi og GSK greindu frá því í dag að rannsóknir sýni fram á að bóluefni sem fyrirtækin eru með í þróun saman virðist veita mikla vörn við Covid-19.
Um er að ræða niðurstöður fasa 2 í rannsóknum bóluefnisins og geta fyrirtækin nú gert tilraunir með bóluefnið á fleiri einstaklingum en áður. Alls tóku 722 í rannsóknunum í fasa 2. Fastlega er gert ráð fyrir að rannsóknum verði haldið áfram á næstu vikum. Niðurstaðan nú er sú að mikið ónæmi myndast hjá öllum aldurshópum en í lok síðasta árs leiddi rannsókn í ljós að ónæmið var lítið meðal gamals fólks. Í kjölfarið var ákveðið að fresta markaðssetningu bóluefnisins til loka þessa árs.
Aðstoðarforstjóri Sanofi Pasteur, Thomas Triomphe, segir að á sama tíma og mikil þörf sé á bóluefnum, ekki síst vegna þess hve hratt veiran stökkbreytist, þá er einnig þörf fyrir bóluefni sem hægt er að geyma við hefðbundið hitastig líkt og það sem er í þróun hjá franska lyfjafyrirtækinu og því breska, GSK.