Ofálag í vinnu getur dregið fólk til dauða

Getty Images/iStockphoto

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) benda til þess að 745 þúsund manns deyi árlega vegna of mikils vinnuálags.

Í skýrslu stofnunarinnar segir að fólk sem vinnur meira en 55 klukkutíma á viku sé 35% líklegra til að fá heilablóðfall og 17% líklegra til að deyja úr hjartaslagi, en fólk sem vinnur að meðaltali 35-40 klukkutíma á viku. Þetta kemur fram á vef BBC.

Þó svo að rannsóknin hafi verið gerð fyrir kórónuveirufaraldurinn segja forsvarsmenn WHO að kórónuveirufaraldurinn gæti haft neikvæð áhrif á þessa þróun.

Þriðjungur vinnutengdra sjúkdóma

„Við erum með gögn sem benda til þess að þegar lönd setja á harðar samkomutakmarkanir lengist vinnuvikan um 10%“ segir Frank Pega, yfirmaður tæknimála hjá WHO.

Skýrslan bendir til þess að lengri vinnuvika beri ábyrgð á um þriðjungi af öllum vinnutengdum sjúkdómum.

Vísindamennirnir segja tvær ástæður fyrir því hve heilsuspillandi það er að lengja vinnuvikuna, í fyrsta lagi hvernig viðbrögð við streitu breytast og í öðru lagi sýndi skýrslan að fólk sem vinnur lengri vinnuviku er mun líklegra að taka upp heilsuspillandi hegðun svo sem tóbaks- og áfengisnotkun, minni svefn og hreyfingu og einnig óheilbrigt mataræði.

Áður en faraldurinn skall á var hlutfall starfsmanna sem unnu lengur en 40 klukkutíma á viku að hækka og var í kringum 9% af heildaríbúafjölda heimsins samkvæmt tölum WHO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert