Tuttugu fyrirtæki bera ábyrgð á rúmlega helmingi alls einnota plasts sem hent er árlega í heiminum. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem gerð var við London School of Economics.
Litið var til 1.000 verksmiðja sem framleiða plast sem notað er í einnota plastvörur. Gríðarlegu magni af plastflöskum, matarílátum og plastpokum er hent á hverju ári og enda oftar en ekki á hafsbotninum.
Í rannsókninni var einnig skoðað hvaða þjóðir nota mest af plasti miðað við höfðatölu. Þar var Ástralía í fyrsta sæti og Bandaríkin fylgdu þar fast á eftir.
Spurn eftir einnota plasti hefur aukist á ný en það má rekja til alls þess hlífðarbúnaðar og læknisbúnaðar sem kórónuveirufaraldurinn hefur kallað eftir. Með þessu áframhaldi er þó útlit fyrir að plastframleiðsla muni aukast um 30% á næstu fimm árum.
Fram til þessa hefur áherslan verið á að minnka plastnotkun í gegnum neytendur með því að hvetja þá til að velja frekar umhverfisvænni kosti. Þessi niðurstaða sýnir aftur á móti að plastframleiðslan er að miklu leyti í höndum þessara 20 fyrirtækja.
Sú staðreynd er sögð fela í sér tækifæri til að beina spjótum frekar að þessum 20 framleiðendum og fá þau til að breyta starfsemi sinni þannig að þau taki upp á því að framleiða frekar plast úr endurvinnanlegum hráefnum.
ExxonMobil er afkastamesti plastframleiðandi heims samkvæmt rannsókninni. Gaf fyrirtækið í kjölfar hennar út yfirlýsingu þar sem það segist deila áhyggjunum og sé byrjað að leita leiða til að gera plastið sitt endurvinnanlegt og framleiðsluhættina umhverfisvænni. Nánari umfjöllun má sjá á vef BBC.