Eitt af hverjum tíu lögregluembættum í Bandaríkjunum getur nú fengið aðgang að milljónum myndskeiða af heimilum fólks án sérstakrar heimildar í gegnum öryggiskerfið Ring. Þetta kemur fram á vef The Guardian.
Lögreglan hefur aðgang að myndskeiðunum í gegnum öryggiskerfið sem er í eigu Amazon. Í frétt Guradian segir að þegar eigendur öryggiskerfisins samþykkja að lögreglan hafi aðgang að myndbandsupptökum, sé engin leið að afturkalla það samþykki. Þá séu fáar takmarkanir á því hvernig efnið sé notað, geymt eða hver hefur aðgang að því. Ýmis hagsmunasamtök hafa því gagnrýnt kerfið fyrir brot á persónuvernd.
Amazon keypti Ring árið 2018 og samdi í kjölfarið við fleiri en 1.800 lögregluembætti um að geta fengið aðgang að myndskeiðunum án heimildar. Ring er orðið eitt stærsta öryggiskerfi Bandaríkjanna en í desember 2019 voru um 400 þúsund kerfi seld. Í lok apríl er gert ráð fyrir að lögreglan hafi lagt hendur á um 22 þúsund myndskeið frá öryggiskerfinu.