Þreföld hlýnun á norðurslóðum

Hlýnun jarðar hefur haft mikil áhrif á norðurslóðum.
Hlýnun jarðar hefur haft mikil áhrif á norðurslóðum. AFP

Norðurslóðir hlýnuðu þrefalt hraðar en jörðin í heild á árunum 1971-2019 og hraðar en áður var talið samkvæmt skýrslu sem Umhverfisvöktunarnefnd Norðurskautsráðsins, AMAP (e. Arctic Monitor­ing and Assess­ment Programme) kynnti í dag. Er þetta meiri munur en áður var talið að norðurslóðir hefðu hlýnað á um tvöfalt meiri hraða en jörðin í heild. 

Í skýrslu nefndarinnar kom fram að norðurslóðir hlýnuðu um 3,1 gráðu selsíus (C) frá því sem var fyrir iðnbyltingu á árunum 1971-2019, á sama tíma og meðalhlýnun jarðar nam einni gráðu.

Hvert brot af gráðu sem hitinn hækkar getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, einkum á norðurslóðum. Til að mynda er talið að það geti aukið líkurnar tífalt á að hafís á norðurslóðum bráðni alveg yfir sumartímann ef jörðin hlýnar um 2 gráður frá því sem var fyrir iðnbyltingu, heldur en ef hún hlýnar um 1,5 gráðu, en það er markmiðið sem sett var á Parísarráðstefnunni 2015.

Þá segir í skýrslu nefndarinnar að líklegt sé að hlýnun norðurslóða muni halda áfram, og stefnir í að meðalhiti þar við lok 21. aldarinnar muni hækka á bilinu 3,3 til 10 gráður yfir meðaltal áranna 1985-2014. 

Varað er við því að umhverfisáhrif hlýnunnar á norðurslóðum geti orðið mjög mikil á þær fjórar milljónir manna sem búa við norðurskaut jarðarinnar, ekki síst á frumbyggja þar, þar sem hlýnunin hafi áhrif á þau dýr sem þeir veiða sér til matar. Þá geti þróunin einnig haft áhrif langt frá norðurslóðum, þar sem t.d. bráðnun Grænlandsíss geti haft í för með sér hækkun á yfirborði sjávar, sem aftur ógni byggðum sem eru mörgþúsund kílómetra í burtu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka