Þorskroð græðir fótasár af völdum sykursýki

Í viðamikilli evrópskri rannsókn er verið að rannsaka árangur nýrrar …
Í viðamikilli evrópskri rannsókn er verið að rannsaka árangur nýrrar meðferðar, þar sem notast er við þorskskinn til ígræðslu á húð sem sýkst hefur af völdum sykursýkis. mbl.is

Fótasár af völdum sykursýki er mikið áhyggjuefni hjá evrópska heilbrigðiskerfinu. Meðferð við slíkum sárum er kostnaðarsöm og í mörgum tifellum er aflimun sýktra útlima óhjákvæmileg. Í viðamikilli evrópskri rannsókn, sem nú stendur yfir, er verið að rannsaka árangur nýrrar meðferðar, þar sem notast er við þorskroð til ígræðslu á sýkta húð.

Íslenska fyrirtækið Kerecis hf. fer fyrir rannsókninni en það hlaut tæplega þriggja milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu til að gera rannsóknina, jafnvirði nærri 450 milljóna króna. Rannsóknin hófst í nóvember 2019 og stendur yfir þar til í apríl 2022. 

Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu Kerecis fer rannsóknin fram í fjórum löndum: Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Svíþjóð. Þeir sjúklingar sem taka þátt í rannsókninni fá ýmist ígræðslu með Kerecis Omega3 Wound, sem unnið er úr þorskroði, samhliða hefðbundinni meðferð eða hefðbundna meðferð eina og sér. Kerecis Omega3 Wound inniheldur mikið magn af Omega 3-fitusýrum og á að vera einstaklega græðandi. Árangur meðferðanna er svo borinn saman á 16 vikna tímabili.

Tilgangur rannsóknarinnar er að kynna Kerecis Omega3 Wound sem nýja vöru til meðferðar á fótasárum af völdum sykursýki og gera hana aðgengilega til kaups og sölu innan opinbers heilbrigðiskerfis Evrópusambandsins.

Í næstu viku munu Ragna Björg Ársælsdóttir verkefnastjóri og Baldur Tumi Baldursson læknir heimsækja tvo af þeim þrettán spítölum í Frakklandi sem taka þátt í rannsókninni þar.

Kerecis byggir vöruþróun sína á efnum úr fiskroði.
Kerecis byggir vöruþróun sína á efnum úr fiskroði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert