Áldósir eru með minnsta kolefnissporið sé aðeins litið til hefðbundinna plast-, gler- og álumbúða. Þar á eftir eru plastflöskur en glerflöskur hafa stærsta kolefnissporið. Hins vegar ef plastflaska er unnin úr 50% endurunnu plasti þá lækkar kolefnisspor plastflaskna niður fyrir áldósir.
Þetta segir í nýju svari Vísindavefsins á því hvaða drykkjarumbúðir eru umhverfisvænstar. En þar segir Sævar Helgi Bragason, sem oft er þekktur undir nafninu „Stjörnu-Sævar“, að umhverfisvænstu drykkjarumbúðirnar séu þær sem notaðar eru aftur og aftur.
„Umhverfisvænst er þó vitaskuld að sleppa alfarið einnota drykkjarumbúðum og nota margnota í staðinn,“ segir hann í svari sínu. Það sé þó ekki alltaf hægt vilji maður eitthvað annað en íslenska kranavatnið.
Plast er aftur á móti illa til þess fallið að vera endurunnið vegna þess hve gæði plastsins minnka við hverja endurvinnslu. Áldósir er hins vegar hægt að endurvinna aftur og aftur án vandræða og auk þess er endurvinnsla málma mun orkuminna ferli en framleiðslan.
Í svarinu eru margir aðrir þættir teknir fram sem hafa áhrif á umhverfið en þar má helst nefna þyngd sem hefur áhrif á flutningsgetu, umhverfisáhrif við framleiðslu, til að mynda jarðrask og útblástur, og áhrif sem kunna að myndast þegar umbúðirnar komast í snertingu við lífríkið í sjónum en þar er plast talið verst.