Hefur greinst á 60 svæðum

AFP

Stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar sem fyrst greindist á Indlandi í október hefur greinst í 60 löndum og sjálfstjórnarsvæðum samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).

Opinberar upplýsingar WHO segja 53 lönd og sjálfstjórnarsvæði en auk þess hefur WHO upplýsingar, sem eftir á að staðfesta, um að afbrigðið hafi greinst á sjö svæðum til viðbótar að því er fram kemur í nýrri skýrslu WHO.

Samkvæmt skýrslunni er afbrigðið sem um ræðir, B.1.617, meira smitandi en ekki liggur fyrir hvort fólk veikist meira af þessu afbrigði eða hvort hættan á sýkingu sé meiri. Unnið er að rannsókn á því á vegum WHO. 

14% fækkun nýrra smita

Á heimsvísu heldur nýjum smitum og dauðsföllum áfram að fækka. Í síðustu viku greindist 4,1 milljón með Covid-19 og dauðsföllin voru 84 þúsund talsins í heiminum. Sem er 14% samdráttur frá vikunni á undan hvað varðar fjölda nýrra smita og 2% færri dauðsföll. 

Samdrátturinn er mestur í Evrópu bæði hvað varðar ný smit og fjölda dauðsfalla síðustu vikuna. Síðan kemur Suðaustur-Asía. Á öðrum svæðum er fjöldi smita og dauðsfalla álíka og vikuna á undan. 

Ný smit eru enn flest á Indlandi.
Ný smit eru enn flest á Indlandi. AFP

Ný Covid-19 smit eru flest á Indlandi (1.846.055) sem er 23% fækkun milli vikna, í Brasilíu (451.424) sem er aukning um 3%, Argentínu (213.046) aukning um 41%, Bandaríkjunum (188.410) sem er 20% samdráttur og Kólumbíu (107.590) sem er 7% fækkun nýrra smita á milli vikna. 

Fjögur afbrigði á gátlista

AFP

Í skýrslu WHO er fjallað sérstaklega um fjögur afbrigði veirunnar sem eru á gátlista stofnunarinnar. Það er afbrigðið sem fyrst greindist í Bretlandi (B.1.1.7), Suður-Afríku (B.1.351), Brasilíu (P.1) og á Indlandi (B.1.617).

B.1.1.7 hefur nú greinst í 149 löndum og sjálfstjórnarsvæðum, B.1.351 á 102 svæðum og P.1 í 59 löndum og sjálfstjórnarsvæðum. 

B.1.617 skipt í þrjár kvíslar

WHO skiptir stökkbreytta afbrigðinu B.1.617 í þrjár ættkvíslar (B.1.617.1, B.1.617.2 og B.1.617.3). Það fyrsta, B.1.617.1, hefur greinst á alls 41 svæði, B.1.617.2 á 54 svæðum og það þriðja, B.1.617.3, á sex. Það er Bretlandi, Kanada, Þýskalandi, Indlandi, Rússlandi og Bandaríkjunum. 

Samkvæmt skýrslu WHO eru nú sex afbrigði Covid-19 til athugunar hjá stofnuninni. Eitt þeirra greindist fyrst í nokkrum ríkjum, tvö þeirra greindust fyrst í Bandaríkjunum og hin þrjú í Brasilíu, Filippseyjum og Frakklandi. Þetta er í takt við það sem áður hefur komið fram varðandi þróun og stökkbreytingar á SARS-CoV-2. Því víðar sem veiran fer því meiri líkur og möguleika hefur hún á því að þróast. 

Með því að draga úr smitum með því að beita viðurkenndum sóttvarnareglum og -aðferðum skiptir sköpum þegar kemur að því að stöðva framgang stökkbreyttra afbrigða segir enn fremur í skýrslunni sem hægt er að lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert