Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins veitti í dag 11 styrki að upphæð 89 milljóna króna. Sjö styrkjanna voru veittir til nýrra rannsókna en fjórir styrkjanna eru framhaldsstyrkir til rannsókna sem hafa áður fengið styrk. Um er að ræða stærstu úthlutun Vísindasjóðsins til þessa.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands.
Á undanförnum fimm árum (frá árinu 2017 til ársins 2021) hefur Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins veitt 58 styrki, alls 316 milljónir króna, til 37 mismunandi rannsókna.
„Um er að ræða styrkveitingar sem teljast sem rífleg innspýting í íslenskt háskóla- og vísindasamfélag og styður við rannsóknarstarf í örum vexti ekki síst í heilbrigðisgeiranum. Þar erum við Íslendingar meðal fremstu þjóða á heimsvísu og eru þau verkefni sem hljóta styrki að þessu sinni líkleg til að hafa marktæk áhrif á þróun forvarna, greiningar og meðferðar krabbameina um allan heim,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.
Þar segir að Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, hafi lagt á það áherslu í ávarpi sínu að sjóðurinn myndi halda áfram að vaxa og dafna og þar með vera íslensku vísindafólki innan handar.
„Styrkirnir skipta verulegu máli, ekki síst við upphaf stórra rannsóknarverkefna sem eiga síðar möguleika á að stækka enn frekar. Vísindasjóðurinn var stofnaður árið 2015 en hryggjarstykki sjóðsins var stofnframlag Krabbameinsfélagsins auk erfðagjafa úr Minningarsjóði Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson annars vegar og Minningarsjóði Kristínar Björnsdóttur hins vegar. Síðan hefur sjóðurinn notið stuðnings sjálfsaflafés Krabbameinsfélagsins en þar eru Velunnarar Krabbameinsfélagsins ómissandi. Fá þeir sérstakar þakkir fyrir að styðja við rannsóknir sem koma til með að bjarga mannslífum,“ segir í tilkynningnni og jafnframt:
„Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, meðal annars með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga.“
Styrkþegarnir í ár eru: