Nasa ætlar að senda fleiri en 100 smokkfiska og fimm þúsund örverur til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Dýrin verða send af stað á fimmtudag.
Vonir standa til að tilraunin geti varpað auknu ljósi á áhrif geimflugs á samspil dýra og örvera. Smokkfiskar hafa ónæmiskerfi sem er líkt því sem menn hafa.
Nasa segir tilraunina geta stutt við þróun á aðgerðum til að vernda heilsu geimfara í löngum geimferðum.
„Dýr, þar á meðal menn, treysta á örverur til að viðhalda heilbrigðri meltingu og góðu ónæmiskerfi. Við skiljum ekki að fullu hvernig geimflug hefur áhrif á þetta samspil,“ segir Jamie Foster, sem stýrir tilrauninni.
Smokkfiskarnir verða frystir áður en þeir snúa aftur til jarðar, segir í frétt BBC.