Drög að skýrslu Sameinuðu þjóðanna um hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar gera heiminum kleift að „horfast í augu við raunveruleika loftslagsbreytinga“, segir sænski loftslagsaðgerðarsinninn Greta Thunberg.
Þrátt fyrir að drög loftslagsnefndarinnar (IPCC) staðfesti að „ástandið sé skelfilegt“ og að „þörf sé á að bregðast við samstundis“ segir Thunberg að hún sé vongóð þar sem það geti vakið fólk til umhugsunar.
Í umræddum drögum, sem aðeins AFP-fréttastofan hefur undir höndum, er varpað fram hvernig útrýming tegunda, útbreiddir sjúkdómar, óhæfur hiti og eyðilegging vistkerfa hefur aukist til muna.
Þá segir einnig í drögunum að skelfileg og sársaukafull áhrif loftslagsbreygina verði áberandi áður en barn sem fæðist í dag verður þrítugt. Margir hættulegir þröskuldar eru nær en áður var talið og skelfilegar afleiðingar sem stafa af áratugalangri skefjalausri kolefnismengun eru óhjákvæmilegar til skemmri tíma litið.
„Við getum auðvitað ekki horfst í augu við þessa krísu nema við segjum hlutina eins og þeir eru, nema við séum nógu fullorðin til þess að segja sannleikann og horfast í augu við raunveruleikann,“ segir Thunberg.
Svíinn, sem er orðin 18 ára, hefur verið í fararbroddi hreyfingarinnar „föstudagar til framtíðar“ sem stendur fyrir vikulegum loftslagsverkföllum ungmenna um allan heim. Hún segir skýrsluna láta fólk horfast í augu við vandann sem hún telur æskilegra en fölsk fullvissa. „Sumt fólk er svo heltekið af því að gera fólk ekki hrætt að það vill ekki einu sinni tala um loftslagskrísuna,“ segir hún.
Þá segir Thunberg að hún vilji ekki að skilaboð til almennings séu „að hlutirnir séu og verði í lagi“ og að „ekki hafa áhyggjur“, þegar „það er í raun ekki rétt“.