Uppgötvun sem gæti breytt sögunni

Tölvugerð endursköpun af höfuðkúpu Homo longi sem var nýlega uppgötvuð …
Tölvugerð endursköpun af höfuðkúpu Homo longi sem var nýlega uppgötvuð í Kína. AFP

Nýuppgötvuð höfuðkúpa í Kína gæti verið af nýrri manntegund, Homo longi, sem er mun skyldari okkur en Neanderdalsmennirnir. Homo longi, eða Drekamaðurinn, á að hafa deilt forföður með Homo sapiens, nútímamanninum, eftir að Neanderdalsmennirnir klofnuðu frá ættlínu okkar.

Ef athuganir vísindamannanna reynast réttar er um að ræða systurtegund Homo sapiens en þessi upgötvun gæti breytt því hvernig við horfum á þróunarsögu mannsins að sögn rannsóknarteymsins.

Upprunalega fannst höfuðkúpan í Heilongjiang héraðinu í Kína rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina en leifarnar voru settar í felur til að vernda þær frá eyðileggingum japanska hersins á sínum tíma. Það var ekki fyrr en árið 2018 sem höfuðkúpan uppgötvaðist að nýju og var þá lögð í hendur Ji Qiang, prófessors í Hebei GEO-háskólanum.   

Teikning af mögulegu útliti Drekamannsins.
Teikning af mögulegu útliti Drekamannsins. AFP

Heili svipað stór og hjá nútímamanninum

Höfuðkúpan er talin að minnsta kosti 146 þúsund ára gömul en stærð og lögun hennar benda til þess að tegundin hafi verið með heila af svipaðri stærð og nútímamaðurinn.

Rannsóknarteymið telur höfuðkúpuna hafa tilheyrt karlkyns Drekamanni á fimmtugsaldri úr hópi safnara og veiðimanna. Út frá staðsetningu fundarins og einkennum höfuðkúpunnar meta rannsakendur sem svo að manntegundin hafi verið aðlöguð erfiðum umhverfisaðstæðum og gæti því hafa dreift sér víða um Asíu.

Vísindamenn útiloka ekki að skyldleiki Homo sapiens og Homo longi sé það mikill að tegundirnar gætu hafa átt afkvæmi saman en erfitt er að segja til um slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert