Ekki kemur að sök þó einstaklingar fái ólík bóluefni í seinni og fyrri sprautu en blöndun bóluefna á að veita ágætis vernd gegn veirunni og því óhætt að beita þessari aðferð við bólusetningar.
Þetta kemur fram í niðurstöðum breskrar rannsóknar sem birtar voru á dögunum og greinir BBC frá þessu.
Rannsóknin tók fyrir hópa fólks sem annars vegar fengu fyrri og seinni sprautu frá sama lyfjafyrirtækinu, Pfizer eða AstraZeneca, og hins vegar hópa sem fengu sprautu hvor frá sínu lyfjafyrirtækinu.
850 sjálfboðaliðar tóku þátt í rannsókninni á aldrinum 50 ára og eldri og liðu fjórar vikur milli fyrri og seinni sprautu. Helstu niðurstöður virðast benda til þess að:
Matthew Snape, prófessor við Oxford-háskóla, sem stýrði rannsókninni, sagði að niðurstöðurnar græfu þó ekki undan stefnu breskra stjórnvalda um að gefa fólki jafnan sama bóluefnið tvisvar, þar sem bæði AstraZeneca og Pfizer hefðu reynst vel í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi og sjúkrahúsinnlagnir af völdum kórónuveirunnar.
Að sögn Jonathans Van-Tam, aðstoðarlandlæknis Englands, gætu niðurstöðurnar veitt aukinn sveigjanleika í bólusetningum í framtíðinni. Bretland mun þó ekki fara strax af stað í slíkar aðgerðir enda birgðastaða góð og engin ástæða til að breyta núverandi skipulagi.
Nú þegar eru lönd á borð við Spán og Þýskaland að beita þeirri aðferð að blanda bóluefnum í ljósi rannsókna sem benda til þess að ungt fólk eigi á hættu að fá blóðtappa eftir bólusetningu með AstraZeneca. Fá þá einstaklingar ýmist seinni sprautu frá Pfizer eða Moderna eftir að hafa fengið þá fyrri frá AstraZeneca.